Edda Daða komin með upp í kok af kræklingatali
„Ég er búin að fá mig fullsadda á þessari endalausu kræklingavitleysu,“ sagði Edda Daða þegar hún hafði samband við ritstjórn á dögunum. „Sauðkræklingar! Hverslags ónefni er þetta eiginlega!? Ég sat og horfði á beina útsendingu á Stöð2Sport með manninum mínum og þar eru einhver glaðhlakkaleg borgarbörn að lýsa leik Tindastóls og Vals og þau svoleiðis staggla á þessu kræklinga-kjaftæði endalaust að það endaði með því að ég fékk bara alveg upp í kok og skipti hérna yfir á hann Gísla Martein... já, þá er nú langt gengið skal ég segja þér!“
Var eitthvað spennandi í gangi hjá Gísla Marteini? „Nei, þetta er aldrei boðlegt hjá þessum pilti, bara eitthvað endalaust hopp og hí, fliss og handapat, alltaf að hneppa og afhneppa jakka... eða heyrðu, jú hún var nú þarna hjá honum hún Vanda okkar, mikið lýst mér vel á að fá hana hérna inn í þennan karlafótbolta, svo sjarmerandi og jákvæð stúlka, já og héðan af Króknum. Yndisleg alveg hreint og svo var hún þarna líka hún hérna, hvað heitir hún aftur... GRDÚN...!? Æ, ég man ekki hvað hún heitir en hún hefur svo fallega framkomu, já og samt bara úr Mosfellsbænum. En ég veit nú ekki með þennan söng hjá henni, svona var nú ekki sungið í minni sveit skal ég segja þér...“
Var svo ekki Guðmundur Andri þarna? „Jú, mikið er hann nú skemmtilegur maður og svona vel gefinn en mér finnst nú kannski ekki við hæfi að hann mæti á... hérna... heyrðu, ertu að snúa út úr fyrir mér!? Ég hringi hér inn bálreið og þú ert búinn að leiða mig á einhverjar villigötur. Ég ætlaði að ræða um hérna kræklingana, Sauðkræklingana...“
Já, hvað segirðu með þá? „Já, nú, svona á maður bara ekkert að tala, skal ég segja þér, eins og þau þarna gerðu sko. Það er bara verið að gera lítið úr okkur. Við erum frá Sauðárkróki sko, S A U Ð og Á R og K R Ó K I. Það er bara þannig. Og hérna ég er heldur ekkert sátt við að vera kölluð Sauðkrækingur. Eins og maður sé bara að krækja í einhverja sauði.“
Þú meinar... „Já vinur, þetta er svo vitlaust að sleppa alveg ánni. Fólk frá Akureyri er ekki kallað Akuringar, er það? Neeeiii, það er bara ekki þannig. Það er nefnilega Akur... eyr...ingar. Reykvíkingar eru ekki Reykingar er það? Haha. Neeeiii. Og þú heyrir aldrei talað um að fólk frá Bolungarvík séu Bolvíkingar er þaaa... nja, þetta var nú kannski ekki gott dæmi hjá mér, æ æ.“
Ég skil hvað þú ert að fara en hvað viltu þá að þú sért kölluð Edda mín ef það má hvorki kalla þig Sauðkrækling eða - kræking? „Ekkert svona „Edda mín“ góði minn, ekki tala svona niður til mín... en jú, í skóla var mér sagt að réttast væri að tala um Sauðárkróksbúa, sem er alveg ágætt, en best þykir mér nú bara að vera Króksari og búa á Króknum. Það er bara þannig. Vertu sæll.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.