Af hverju er alltaf verið að púkka upp á þessa Blönduósinga?
Herjólfur Jónsson, sjómaður, hafði samband við Dreifarann um helgina. Hann segir rólegt hjá trillusjómönnum þessa dagana og tíminn helst notaður í að ditta að og hella upp á kaffibolla og þess háttar. „Já, og skutla börnunum í sportið. Eitt skil ég samt ekki sko og það er hérna af hverju alltaf er verið að púkka upp á þessa Blönduósinga, ha?“
Hvað meinarðu Herjólfur? „Hvað ég meina!? Já, ég skal sko segja þér það. Ég fylgist nú með öllu þessu sporti hérna á Króknum og þá hérna kannski sérstaklega körfunni, já og eitthvað fótboltanum sko þó ég sé nú alveg fyrst og fremst Júnæted maður þar sko. Óli Gunnar er sko alveg minn maður þar sko, helvíti sem nossarinn er að gera góða hluti, ha!? En ég er með hérna tvo krakka í körfunni, já og stelpan er líka í fótboltanum sko, og ég skil ekkert af hverju sveitarfélagið hérna er svo alltaf að styrkja þessa Blönduósinga sko, hvað er það eiginlega?“
Af hverju segirðu það? „Nú, það var nú bara verið að hækka styrkinn til þeirra þarna á hérna ... já fyrir vestan. Ég held það sé alveg úr 8.000 í 25.000 held ég sko bara á haus sko. Ég skil þetta bara ekki. Væri ekki gáfulegra fyrir okkur að Tindastóll fengi þennan pening!? Ég á eiginlega ekki til orð sko.“
Ertu að tala um hvatapeningana? „Já, einmitt, Hvatarpeningana. Hvað erum við hér að styrkja Hvöt á hérna Blönduósi?! Geturðu kannski útskýrt þetta fyrir mér!?“
Þú ert örugglega að misskilja þe... „Misskilja. Nei, þetta er þarna bara á svarthvítu...“
Nei, þetta eru sko hvatapeninga með litlu hái. „Hvað, eru þeir fyrir vestan farnir að nota lítið há í Hvöt? Andskotinn hafi það, eru þeir alveg búnir að tapa glórunni?“
Nei, Herjólfur, hlustaðu á mig. Þessir peningar fara ekki vestur á Blönduós. Þetta eru hvatapeningar, hugsaðir til að hvetja foreldra til að senda börn og unglinga til að stunda íþróttir, ef ég skil þetta rétt, og líka svona fjárhagsleg hvatning til að létta undir með fjölskyldunum, skilurðu? Það er dýrt að stunda íþróttir. „Nei, hættu nú, ertu viss um þetta? Djöfull hef ég misskilið þetta maður. En ég er viss um að Óli Gunnar er sko ekki að fá neina hvatapeninga, hvorki frá Blönduósi né héðan af Króknum. Ég hef heyrt að hann sé þarna hjá Júnæted bara upp á ánægjuna, enda alveg gegnheill Júnæted-maður. Glory, glory sko!“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.