Úr Fjölbrautinni á Feyki - Björn Jóhann Björnsson rifjar upp blaðamannaferilinn

Í tilefni 40 ára afmælis Feykis var Björn Jóhann Björnsson, blaðamaður og aðstoðarfréttastjóri á innlendri fréttadeild Morgunblaðsins, beðinn um að rifja upp sín Feykisár þar sem farsæll blaðamannaferill hans hófst til skýjanna eftir góðan undirbúning við Molduxa, skólablað Fjölbrautaskólans. Björn Jóhann brást vel við bóninni eins og hægt er að lesa hér á eftir.

Ég á ekkert nema góðar minningar frá tímanum á Feyki, sem byrjaði að mig minnir á haustdögum 1986, fyrir bráðum 35 árum. Jón Gauti Jónsson, kennari í Fjölbraut, var þá ritstjóri og hafði verið með nokkra nemendur í blaðaskrifum, byrjaði með Hemma Sæm og Skúla Þórðar. Síðan bættist Ingi V. Jónasson við og hann fékk mig þarna inn með sér, en við skrifuðum þá fréttir og tókum myndir síðasta veturinn okkar í Fjölbraut. Við Ingi höfðum verið saman í ritstjórn skólablaðsins Molduxa og Feykir var líklega bara næsta skref. Um vorið 1986 gáfum við Molduxa út daglega í eina viku, í þemaviku í Fjölbraut, og það var virkilega skemmtilegt og lærdómsríkt.

Þessi áhugi minn byrjaði snemma, að skrásetja samtímann og segja sögur af fólki. Var líka í ritstjórn skólablaðsins í Gagnfræðaskólanum og fylgdist síðan með blaðaútgáfu Guðna bróður, sem ásamt Óla Birni Kárasyni gaf út Krókstíðindi. Þetta var einhvers konar undanfari Feykis en tvö tölublöð af Krókstíðindum komu út haustið 1980, nokkrum mánuðum áður en fyrsti Feykir kom út.

Ungur maður í blaðamannagírnum 1988.
Mynd: Eysteinn Þór Kristinsson.

Þetta voru skemmtilegir tímar á Feyki. Við ungu drengirnir fengum frjálsar hendur og gerðum margt spaugilegt, svona eftir á að hyggja. Ingi byrjaði sinn feril á Feyki með því að annast vísnaþáttinn Bragamál, og veit að hann lýsir því á öðrum stað hér í blaðinu. Vísnaþátturinn vatt fljótt uppá sig og varð síðar forveri hagyrðingaþáttar Guðmundar Valtýssonar frá Eiríksstöðum í Svartárdal. Guðmundur hóf sinn þátt árið 1987 og er enn að, líklega einn lífseigasti vísnaþáttur sem enn birtist í íslenskum fjölmiðlum. Við upprifjun á þessum fyrstu Feykisárum gleymdi ég mér við að fletta blaðinu á Tímarit.is, og rakst meðal á ramma í blaðinu 1987, sem segir ansi stóra sögu um tækni og samgöngur þess tíma, þegar efni blaðsins barst víða að: ,,Vegna óveðurs og ófærðar komst hagyrðingaþátturinn ekki í tæka tíð og verður því birtur í næsta blaði.”

Mér er einnig minnisstæð fréttin um ljósastaurana fyrir neðan Túnahverfið, sem voru lengi vel án lampa. Fyrirsögnin var ,,Er ekki kominn tími til að tengja” og vísaði þar til vinsæls lags með Skriðjöklunum um þessar mundir. Hafði samband við Sigga rafveitustjóra, sem þá var í stjórn Feykis, og hann bar við fjárhagsvandræðum Rafveitunnar að ekki var búið að leysa lampana úr tolli. Í leiðinni minnti hann bæjarbúa á að greiða skuldir sínar við Rafveituna, svo hægt væri að klára að setja staurana upp!

Í sama blaði, á baksíðunni við hliðina á ljósastaurafréttinni, var hinn vikulegi spurningaþáttur Feykis þar sem vegfarendur voru spurðir einnar spurningar. Þarna var leiðtogafundurinn í Höfða nýafstaðinn og við Ingi spurðum hvor hefði staðið sig betur, Reagan eða Gorbatsjov. Sigfús Steindórsson, betur kunnur sem Fúsi flummur, lá ekki á sínu svari frekar en fyrri daginn: ,,Mér leist miklu betur á Gorbatsjov. Reagan sagði bara lélega brandara, enda að verða of seinn í mat til Nancy, og líkast því sem hann hafi ekkert fengið að éta hér.”

Hringiða mannlífsins á kaffistofunni
Ritstjórnarskrifstofa Feykis á þessum tíma var í gamla Barnaskólanum við Aðalgötu, gegnt kirkjunni og safnaðarheimilinu. Sannarlega í hringiðu mannslífsins á Króknum þegar líflegt var í gamla bænum, mörg fyrirtæki og verslanir þar starfandi og margir áttu líka leið í prentsmiðjuna SÁST, hinum megin við ganginn. Þar réðu Stebbi Árna og Guðni Friðriks ríkjum en SÁST (síðar Nýprent) deildi kaffistofunni með Feyki. Þarna komu reglulega góðir gestir úr flestum stigum mannlífsins og fengu sér kaffisopa, bæjar- og heimsmálin voru rædd og í sumum tilvikum leyst. Í þessu spjalli fæddust einnig margar góðar fréttir og greinar í blaðinu. Feykir og Sjónhornið voru fréttamiðlar svæðisins á þessum tíma, netið ekki komið og umhverfið frábrugðið því sem við eigum að venjast í dag. Ég viðurkenni að vinnufriðurinn gat stundum verið takmarkaður og sökum gestagangsins gat teygst á deginum, en skemmtunin og fróðleikurinn bættu alfarið upp lengri vinnudag.

Sumarið eftir stúdentsprófið 1987 vann ég síðan í fullu starfi á Feyki og leysti einnig af ritstjórann um tíma, Ara Jóhann Sigurðsson frá Holtsmúla, sem tók við af Jóni Gauta. Haukur Hafstað í Vík var þarna líka, virkilega gaman að vinna með honum en hann bæði skrifaði fréttir og safnaði auglýsingum. Við gengum eiginlega í öll verk, ekki bara skrif heldur einnig að taka ljósmyndir, stússa í kringum dreifinguna og vera í sambandi við fréttaritara blaðsins. Þessi reynsla reyndist manni síðar meir mjög dýrmæt í blaðamennskunni. Feykir var með þéttriðið net fréttaritara á þessum tíma, en Örn Þórarins á Ökrum flutti fréttir austan vatna, sérstaklega úr Fljótum, Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum og Þorgrímur Daníelsson á Tannastöðum skrifuðu efni úr Húnavatnssýslum og seinna kom Júlíus Guðni Antonsson inn fyrir Þorgrím. Það var ekki síður skemmtilegt að eiga í samskiptum við Guðmund hagyrðing Valtýsson og aðra penna sem lögðu blaðinu til efni.

Úrklippa með frétt um ljósastaurana neðan Túnahverfis
ásamt spurningu vikunnar.

Eftir tímann á Feyki var búið að leggja línur á mínum ferli, meðvitað eða ómeðvitað. Óskar bróðir plataði mig í kennslu í Gagnfræðaskólanum veturinn 1987-1988 og þakka honum í dag fyrir að gefa mér snemma færi á að uppgötva að kennsla væri ekki við mitt hæfi! Eftir þennan vetur tóku við skrif fyrir dagblaðið Dag, sem var þá með ritstjórnarskrifstofu á Króknum. Tók við af Þórhalli Ásmunds sem var ráðinn ritstjóri Feykis 1988. Ég vann einnig á Degi á Akureyri samhliða háskólanámi og með frábæru samstarfsfólki fékk ég einn meiri og betri reynslu í blaðamennsku. Sumarið 1992 var ég ráðinn á DV, var þar til 1998. Kom aftur á Dag 1999 og var í eitt ár á ritstjórnarskrifstofunni í Reykjavík sem fréttastjóri, þar til ég var ráðinn á Morgunblaðið haustið 2000. Hef verið þar síðan og er aðstoðarfréttastjóri á innlendri fréttadeild blaðsins.

Allan tímann hef ég fylgst með og lesið Feyki mér til mikillar ánægju. Staðbundin fjölmiðlun er eftirsótt en dreifing héraðsfréttablaðanna hefur verið í lamasessi eftir að Pósturinn dró úr sinni þjónustu á landsbyggðinni. Það var því eðlilegt viðbragð hjá stjórnendum Feykis að setja blaðið á netið fyrir áskrifendur, en það eru einnig mikil sóknarfæri fyrir vefsíðuna feykir.is.
Til hamingju með 40 árin, gamli góði Feykir!

Áður birst í 15. tbl. Feykis 2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir