Uppbygging skólamannvirkja í Varmahlíð
Í liðinni viku voru kynntar tillögur VA Arkitekta að breytingum á Varmahlíðaskóla og samþættingu leik-, grunn- og tónlistarskóla á einum stað. Tillögurnar eru afrakstur vinnu sem hófst í árslok 2019 þegar sveitarfélögin tvö í Skagafirði samþykktu að vinna að ofangreindu markmiði og skipuðu sérstaka verkefnisstjórn um framkvæmdina með það að leiðarljósi að þær breytingar sem gerðar yrðu á húsnæðinu og umhverfi þess myndu uppfylla þarfir og kröfur sem gerðar eru í dag til skólahalds leik-, grunn- og tónlistarskóla.
Gott samstarf hefur verið innan verkefnisstjórnar í undirbúningnum og var snemma ákveðið að virkja nærsamfélag skólanna í samráðsferli og var þar stuðst við svokallað „Design Down Process“ sem á íslensku hefur verið kallað undirbúningsferli hönnunar, frá hinu almenna til hins sérstæða. Í því skyni voru m.a. haldnir samráðsfundir með íbúum beggja sveitarfélaga til að ná fram sjónarmiðum sem flestra við gerð þarfagreiningar skólanna og umhverfi þeirra.
Markmið þessarar undirbúningsvinnu var að safna og greina þarfir og óskir nemenda, starfsmanna, foreldra og annarra íbúa, auk þeirra sem sækja þjónustu á svæðinu. Einnig var lögð áhersla á að skoða nánar hvernig má nýta húsnæðið fyrir samfélagið í heild sinni til að skapa sameiginlegan vettvang fólks á öllum aldri til að sinna áhugamálum og félagsstarfi. Við sjálfa hönnunina var svo eftir því sem unnt var komið til móts við þau sjónarmið sem fram komu í samráðsferlinu. Markmiðið var að skapa hagnýtt námsumhverfi sem er í senn örvandi fyrir nemendur og starfsfólk en hefur líka möguleika á því að verða grunnur að „hjarta“ samfélagsins í framhéraði Skagafjarðar.
Í þarfagreiningu fyrir breytingum á húsnæðinu er horft til áframhaldandi uppbyggingar og fjölgunar íbúa í framhéraðinu og þannig er miðað við að endurbæturnar geti rúmað um eða yfir 50% fleiri nemendur í bæði leik- og grunnskóla en nú er. Er það í takt við talsverðan fjölda nýbygginga sem risið hafa í dreifbýlinu á undanförnum árum, auk nýbygginga og verulega aukna eftirspurn eftir lóðum í Varmahlíð. Til að mæta henni er nú m.a. unnið að deiliskipulagsgerð þar sem gert er ráð fyrir einbýlis-, par- og raðhúsalóðum fyrir allt að 24 íbúðir í Varmahlíð. Þá er gert ráð fyrir að frekari uppbygging geti orðið á svæðinu með mismunandi húsagerðum til að mæta auknum kröfum varðandi uppbyggingu og stækkun þéttbýlisins.
Tillögur að breytingum skólamannvirkja í Varmahlíð hafa nú verið birtar á heimasíðum beggja sveitarfélaga og hengdar upp á veggi skólanna í Varmahlíð til að íbúar, þ.m.t. starfsmenn og nemendur, geti kynnt sér þær og brugðist við með ábendingum eða athugasemdum. Í kjölfarið verður ráðist í fullnaðarhönnun mannvirkjanna og unnið að útboðsgögnum. Stefnt er að útboði síðar á þessu ári og að framkvæmdir geti hafist í árslok eða á fyrri hluta árs 2023. Ljóst er að hraði framkvæmdanna ræðst mjög af því hvort sveitarfélögin tvö sameinast í kjölfar kosninga 19. febrúar nk. en sameiningu fylgir um 730 milljón króna fjárframlag frá Jöfnunarsjóði sem sveitarfélögin eru sammála um að nýta til að hraða uppbyggingu skólamannvirkja í Varmahlíð eins og kostur er.
Gísli Sigurðsson
Ingibjörg Huld Þórðardóttir
Álfhildur Leifsdóttir
Jóhanna Ey Harðardóttir
Sigfús Ingi Sigfússon
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.