Torskilin bæjarnöfn :: Vík í Sæmundarhlíð

Heimamenn og skólafólk við steinhúsið í Vík vorið 1909. Það var hlaðið úr steinum framleiddum í steinaverksmiðju á Sauðárkróki. Síðdegis hinn 25. október 1923 kviknaði í húsinu og brann allt innan úr því svo að veggirnir stóðu einir eftir. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar II. bindi.
Heimamenn og skólafólk við steinhúsið í Vík vorið 1909. Það var hlaðið úr steinum framleiddum í steinaverksmiðju á Sauðárkróki. Síðdegis hinn 25. október 1923 kviknaði í húsinu og brann allt innan úr því svo að veggirnir stóðu einir eftir. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar II. bindi.

Þetta bæjarnafn þekkist fyrst úr Sturlungu. Meðal þeirra manna, sem Brandur Kolbeinsson hafði í vígförinni að Þórólfi Bjarnasyni, er nefndur ,,Einarr auðmaðr í Vík“ (Sturl. II. bls. 333).

Síðar í Sturlungu er Einars getið á þessa leið: „Einarr auðmaðr hét maðr, hann bjó í Vík út frá Stað ... . Hann var til þess settr, sem hann gerði, at hann flýði fyrstr allra manna, ok Brandr son hans, ok þar margir eftir“ (Sturl. III. bls. 128), þ. e. úr Hauganessbardaga 1246. Það má því telja víst, að „Vík út frá Stað“ hafi heitið þessu nafni frá upphafi sinna vega, þar sem telja má heimild fyrir nafninu frá aldamótum 12. aldar, eða byrjun 13. aldar.

Síðar finst Víkurnafnið í mörgum fornskjölum, meðal annars við árið 1450 (Dipl. Ísl. V. b., bls. 55), ennfremur í vitnisburðarbrjefi, ársett 1494 (Dipl. Ísl. VII. b., bls. 221) og öðru hvoru eftir það og nafnið hefir ekkert breyzt. Um það geta því engin tvímæli verið. En hvar er víkin, sem bærinn er kendur við? Jörðin liggur um 9 kílóm. frá sjó og getur á engan hátt dregið nafn af neinni sjávarvík. Enda standa sumar Víkurjarðir fjarri sjó, t. d. eyðijörðin Vík í Blönduhlíð, þótt algengast sje, að þær standi nærri sjó.

Eins og kunnugt er, er orðið „vík“ æfagamalt og táknar jöfnum höndum í fornmáli litla voga, sem teygjast inn í landið úr sjó, eða vötnum. (Af orðinu „vík“ er talið að „víkingur“ sje myndað, af því að sjóræningjar leituðu lægis í vogum og víkum.) Nú vill svo til, að Miklavatn vestan Hjeraðsvatna takmarkar svonefndar Víkurmýrar að norðan, að miklu leyti. (Vatnið er all stórt og Vík hefir til forna átt land út með vatninu að vestan, því að Hólkot er bygt úr Víkurlandi.) Sæmundará fellur í suðurenda vatnsins, og hefir myndað, með framburði, grösugt land, sem kallast Hólmar og Tangar.

Þar hafa vafalaust verið myndaðir sandar á Landnámstíð. Beggja megin við sandana mynduðust víkur, austan og vestan. Vestari víkin sjest ekki frá Vík, því að jeg tel efalaust, að bærinn standi á sínum upphaflega stað, en austari víkin sjest öll, og hefir sjest frá bænum. Nú er það eftirtektavert, að þetta er sú eina vík, sem sjest frá bænum, þótt hún sje í hjerumbil 1½ km. fjarlægð. Og í öðru lagi sjest ekkert annað af Miklavatni frá Víkurbæ en víkin þessi.

Sá, sem fyrstur bygði bæinn í Vík, hefir vafalaust veitt þessu hvorutveggja athygli, og nefnt bæinn eftir víkinni, Þetta er, að minni hyggju, langsennilegasta tilgátan, um uppruna nafnsins. Það haggar ekkert þessum rökum, þótt sje víkurnar kallaðar (vatns)vik, því að forna myndin er vík, en vik þekkist - í þeirri merkingu - aðeins í yngra máli, og er líklega runnið af danska orðinu vig, er þíðir vik (sbr. Lexicon Poetícum, bls. 624).

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 35. tbl.  Feykis 2021

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir