Torskilin bæjarnöfn - Miðsitja í Blönduhlíð

Rjetta nafnið er Miðskytja. Elzta heimild fyrir því er Sturlunga (Sturl. II. b., bls. 306), og svo lítur út fyrir, að bærinn hafi á 13. öld verið nefndur Skytja, því að þannig ritar Sturla lögmaður á öðrum stað í Sturlungu (Sturl. II. b., bls. 313).
Bæiarnafn þetta kemur víða fyrir í fornbrjefum og ávalt er það ritað á eina leið: Miðskytja (Dipl. Ísl. IV. b., bls.511 og víðar). Nú er ætíð sagt og ritað Miðsitja; verður ekki sagt með vissu, hvernig á þessari breytingu stendur, en sennilegast þætti mjer, að nafnið hefði þótt ljótt og því verið breytt til, en merkingin náskyld því eldra. Og það er ljóst, að nafninu hefir verið breytt fyrir 1800, því að þetta nafn hefir haldist svo lengi sem elztu menn muna og það hafa jarðabækurnar síðustu (sjá Johnsens Jarðatal og Ný jarðabók bls. 104). Miðskytja er eins
og kunnugt er á milli Hellu, sem er að norðan, og Sólheima (að sunnan). Þær jarðir hafa bygst fyr en Miðskytja og henni verið „skotið“ inn á milli þeirra. Af því mun nafnið vera dregið.
Miðskytjuland mjókkar, þegar niður dregur, að Hjeraðsvötnunum. Það er því breiðara upp og myndar næstum því fleygmyndaða spildu gegnum lönd jarðanna beggja megin. Virðist það eiga vel við rjetta nafnið, þ.e. því skotið inn á milli (Miðskytja hefir víst verið bygð úr Sólheimalandi, því að sú jörð er gömul mjög, en seld hefir hún verið snemma undan, því
að 1432 kaupir hana síra Jón Pálsson, fyrir Horn í Hornafirði, og þá er Sólheima hvergi við getið).
Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar
Áður birst í 31. tbl. Feykis 2020
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.