Staðarmiðlar „kanarífuglinn í kolanámunni“, segir Birgir Guðmundsson um rekstrarvanda fjölmiðla – Feykir 40 ára

„Netvæðingin og tilkoma samfélagsmiðla hefur gjörbreytt umhverfinu hjá hefðbundnum fjölmiðlum, ekki síst rekstrarskilyrðum en líka vinnubrögðum og framsetningu,“ segir Birgir Guðmundsson, dósent í fjölmiðlafræði við HA.
„Netvæðingin og tilkoma samfélagsmiðla hefur gjörbreytt umhverfinu hjá hefðbundnum fjölmiðlum, ekki síst rekstrarskilyrðum en líka vinnubrögðum og framsetningu,“ segir Birgir Guðmundsson, dósent í fjölmiðlafræði við HA.

Birgir Guðmundsson er dósent í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri og meðal rannsóknarefna hans hafa verið staðarmiðlar og mikilvægi þeirra í nærsamfélaginu. Birgir hefur einnig skrifað og fjallað um fjölmiðla í víðara samhengi, ekki síst fjölmiðla og stjórnmál og fjölmiðlasögu. Við hittum Birgi fyrir til að ræða stuttlega stöðu fjölmiðla og báðum hann fyrst um að segja aðeins frá sjálfum sér og hvernig hann kemur að fjölmiðlasögu landsins og um starfið hjá HA og fjölmiðlafræðinámið.

„Ég gerist nú þátttakandi í fjölmiðlasögunni þegar ég hóf störf sem blaðamaður á dagblaðinu NT um miðjan níunda áratug síðustu aldar eftir að hafa verið í stjórnmálafræðinámi bæði í Englandi og Kanada. Síðan var ég að vinna nær sleitulaust á dagblöðum fram yfir aldamótin, lengst á Tímanum og síðar Degi. Segja má að ég hafi sinnt flestum tegundum blaðamennsku, helgarblaðsvinnu og innblaði en mest var ég þó í fréttum og starfaði við fréttastjórn og ritstjórn. Á blaðamennskuárunum tók ég nokkurn þátt í stöfum Blaðamannafélagsins og eftir að ég flutti mig um set og gerðist háskólakennari hef ég haldið þessum tengslum við félagið og unnið ýmis verkefni fyrir það.

Námið hjá okkur í HA er almennt fjölmiðlafræðinám þar sem við leggjum áherslu á að gefa góða innsýn í það hvernig fjölmiðlar starfa og hver eru áhrif þeirra í samfélaginu. Þetta er því ekki beinlínis blaðamennskunám, þó við gefum nokkra innsýn og þjálfun á þeim vettvangi og fjölmargir nemendur okkar hafa einmitt farið að vinna á fjölmiðlum. En þetta er heldur ekki hrein félagsfræði fjölmiðla þó við leggjum talsverða áherslu á þann þátt líka. Almennt leggjum við áherslu á að námið geti gagnast þeim sem fara að vinna við fjölmiðla eða í einhverju tengdu fjölmiðlum, en ekki síður að það sé heildstæð undirstaða fyrir frekara nám á einhverju sviði félagsvísinda.“

- Getur þú lýst því hvort og þá hvernig umhverfi fjölmiðla hefur breyst á undanförnum áratugum (40 ár jafnvel) og hvernig útlitið blasir við fyrir fréttamiðla í framtíðinni?
„Umhverfi fjölmiðlanna hefur einfaldlega gjörbreyst á þessum tíma. Fyrir það fyrsta höfum við farið frá flokksblaðakerfinu og yfir í markaðskerfi sem ríkir bæði á ljósvakamarkaði og á blaðamarkaði. Þetta hefur leitt til mikillar samkeppni um auglýsingatekjur sem setur mark sitt á efni og útgáfumöguleika. Í öðru lagi hefur orðið á síðustu 10-15 árum ótrúleg tækniþróun sem leitt hefur til samruna ólíkra miðlunarforma sem breytir framsetningu og öllum möguleikum. Um leið hefur netvæðingin, einkum tilkoma samfélagsmiðla, gjörbreytt umhverfinu hjá hefðbundnum fjölmiðlum, ekki síst rekstrarskilyrðum en líka vinnubrögðum og framsetningu. Við sjáum að félagsmiðlarisarnir eins og Google og Facebook eru að þurrka upp auglýsingamarkaði bæði hér heima og erlendis, og það hefur gríðarleg áhrif á hefðbundna miðla, ekki síst þá sem glímdu við hálfgerðan markaðsbrest fyrir, eins og mjög marga staðbundna miðla. Fyrir utan ýmis álitamál sem fylgja samfélagsmiðlum og tengjast falsfréttum og faglegri blaðamennsku má segja að þeir hafi sett rekstrarmódel hefðbundinnar fjölmiðlunar í uppnám. Enn hafa ekki fundist viðunandi lausnir þótt þeirra sé nú leitað með logandi ljósi víða um heim! Því er haldið fram að hefðbundnir faglegir fréttamiðlar séu eins konar upplýsingakerfi lýðræðisins og ef tryggja á að það virki í framtíðinni virðist liggja beint við að það geti kostað eitthvað af skattfé, rétt eins og fé er sett í heilbrigðiskerfið eða skólakerfið. Svo er spurning hvernig það er gert, vilja menn gera það eingöngu með ríkisútvarpi eða eitthvað meiri fjölbreytni og fjölræði.“

- Útvarps- og sjónvarpsmiðlar hafa átt miklum vinsældum að fagna í gegnum tíðina en nú virðast streymisveitur veita þeim harða samkeppni, sérstaklega hjá yngra fólkinu. Eigum við eftir að sjá mikilvægi stóru miðlana fara dvínandi s.s. eins og hjá RÚV, Stöð 2 og Bylgjunni?
„Þetta er ein birtingarmynd tækniþróunarinnar sem ég nefndi áðan Hvað er sjónvarp og hvað er útvarp? Er hlaðvarp útvarp? Er streymisveita sjónvarp? Ég held að við hljótum í raun að viðurkenna það og tala í raun um línulegt sjónvarp og útvarp og svo útvarp og sjónvarp sem fólk sækir að vild í hin ýmsu snjalltæki. Ég held að þessir hefðbundnu sjónvarps- og útvarpsmiðlar muni einfaldlega aðlagast breyttum aðstæðum og bjóða í auknum mæli upp á tímaflakk og að fólk geti valið eigin dagskrá. Raunar er þetta þegar komið og mun einfaldlega aukast. Þetta á þó fyrst of fremst við um afþreyingarefni, en fréttir og fréttatengt efni mun áfram vera bundið tíma í ríkari mæli og þar mun rekakkerið á þessa þróun halda á móti lengi enn.“

- Hvernig sérðu möguleika stærstu prentmiðla landsins á að koma út án stuðnings ríkisins t.d. Morgunblaðsins og Fréttablaðsins ef auglýsingatekjur dragast enn frekar saman?
„Ég held að róður prentmiðlanna sé sífellt að þyngjast, en það hefur hjálpað þeim að auglýsingar hafa haldist lengur í slíkum miðlum en víða erlendis. Auglýsendur hafa lengi frekar viljað auglýsa á prenti en á vefnum, en vísbendingar eru um að það sé að breytast. Covid 19 hefur síðan gert stöðuna enn verri. Stóru samfélagsmiðlarisarnir eru að hrifsa til sín sífellt stærri bita af kökunni og erfitt að sjá hvernig blöðin geta haldið úti óbreyttri útgáfu án styrkja. Raunar hafa blöðin dregist gríðarlega saman að umfangi og lestri á árunum eftir hrun. Og nú síðast í þessari viku sáum við dæmi um þetta þegar útgáfufélag DV og Fréttablaðsins, Torg, tilkynnti að prentútgáfu DV yrði hætt og fyrir ári var útgáfudögum Fréttablaðsins fækkað um einn“

- Er einhver samhljóma lína sem hægt er að setja fingur á hjá héraðsfréttablöðum landsins, að þínu mati?
„Já ég myndi segja að nákvæmlega sama ferlið hefur átt sér stað hjá héraðsfréttamiðlum en bara talsvert fyrr. Segja má að héraðsfréttamiðlarnir hafi verið „kanarífuglinn í kolanámunni“ hvað þetta varðar. Raunar hef ég haldið því fram í á vel á annan áratug að þörf væri á sérstökum styrk til héraðsfréttamiðla til að vega upp þann markaðsbrest sem þar er vegna takmarkaðra auglýsinga og tryggja upplýsingaþjónustu úr nærsamfélaginu til íbúa. Skrifaði meira að segja um það litla bók árið 2004. Héraðsmiðlarnir gegna gríðarlega mikilvægu lýðræðislegu og samfélagslegu hlutverki, eins og þið hjá Feyki eflaust þekkið vel. Hins vegar hefur aldrei náðst almennileg umræða um að styrkja þessa starfsemi þrátt fyrir að það hafi raunar komið fram einum þrisvar sinnum þingályktunartillögur um að kanna þörfina á slíku. Umræðan hefur dáið jafnharðan þar til að stóru miðlarnir eru komnir í svipaða stöðu og héraðsmiðlarnir voru í fyrir rúmum áratug. Nú loksins hillir undir einhvern stuðning, sem er gríðarlega mikilvægur, en vissulega er þetta vandmeðfarið.“

Áður birst í 15. tbl. Feykis 2021.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir