Samkeppnishæfara sveitarfélag

Varmahlíð: Mynd af skagafjordur.is.
Varmahlíð: Mynd af skagafjordur.is.

Fátt skiptir meira máli en skólamál þegar fólk stendur frammi fyrir vali á búsetu. Í framsæknum samfélögum þarf að vera góð aðstaða í skólum, gott og umhyggjusamt starfsfólk, ekki löng bið eftir leikskólaplássum o.s.frv., annars sest fólk einfaldlega annars staðar að. Nú standa íbúar í Skagafirði frammi fyrir kosningu um sameiningu sveitarfélaganna tveggja, Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Ef sameining verður samþykkt verður til fjölmennasta dreifbýlissveitarfélag landsins með þriðjung íbúa héraðsins í dreifbýli.

Varmahlíð er óumdeilanlega hjarta framhéraðsins. Þar er þjónustukjarninn, þar er hægt að hanga í heita pottinum á kvöldin og ræða heimsmálin, sækja íþróttir eða njóta þess að ganga upp á Reykjarhólinn. Þar er sérstaklega vel staðsettur skóli með íþróttamannvirki bæði innan dyra og utan, stórt og vel búið menningarhús við hliðina og heilan skóg í næsta nágrenni. Tónlistarskólar eru jafnframt innan seilingar, tveir frekar en einn, frístund og allar aðstæður fyrir fjölskyldufólk eftirsóknarverðar. Í grunn-, leik- og tónlistarskólunum starfar vel menntað fagfólk sem sinnir störfum sínum af kostgæfni.

Nú standa fyrir dyrum miklar og tímabærar endurbætur á húsnæði skólanna í Varmahlíð. Hönnunarvinna vegna þessa er vel á veg komin og var m.a. undirbúin með fundum þar sem leitað var eftir hugmyndum nærsamfélagsins. Að auki eru hafnar viðgerðir á húsnæði sem nýtast í fyrirhuguðum endurbótum. Þarna hefur verið unnið gott og metnaðarfullt undirbúningsstarf og gert ráð fyrir að nemendafjöldi aukist umtalsvert og allar aðstæður verði hinar bestu fyrir börn og starfsfólk allra skólanna.

Sameinuðu sveitarfélagi stendur til boða veglegur fjárhagslegur styrkur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem þau eru sammála um að ráðstafa til uppbyggingar í Varmahlíð. Með honum má tryggja hraðari uppbyggingu í skólasamfélaginu en ella og löngu tímabærar endurbætur á skólahúsnæði í Varmahlíð og þar með vinnuaðstæðum nemenda og starfsfólks. Það er mikill ábyrgðarhluti að hafna sameiningu þegar þannig háttar til.

Sameiningu sveitarfélaganna fylgja ekki bara fjárhagsleg tækifæri heldur líka félagsleg. Nú er lag að leggja grunn að virku íbúalýðræði eins og sameiningarnefnd sveitarfélaganna hefur fjallað um. Slagkraftur íbúanna í dreifbýlinu verður meiri þegar þeir eru sameinaðir, svo ekki sé talað um samfélagsins alls út á við. Því þótt héraðið sé víðfemt þá er samfélagið ekki fjölmennt á landsvísu og við megum engan mann missa.

Það þarf enginn að segja Skagfirðingum að hvergi á byggðu bóli sé fegurra og söguríkara hérað. Hér er blómleg byggð og ríkulegt atvinnulíf, veigamikill hluti matvælaframleiðslu landsins og fjölbreytt gæði. Við lifum samt ekki á fornri frægð og hrepparíg til frambúðar. Ef við viljum að þær kynslóðir sem nú vaxa úr grasi horfi á Skagafjörð sem ákjósanlegan kost til búsetu og geti hugsað sér að setjast hér að þurfum við að horfa til framtíðar og byggja upp skilvirka stjórnsýslu og sterka innviði. Fyrir framhéraðið er ekkert mikilvægara en að styrkja skólasamfélagið í Varmahlíð eins og kostur er. Í því skyni er gott að byrja á þeirri vinnu sem lagt hefur verið í af hálfu sameiningarnefndar sveitarfélaganna. Þar hafa verið greindir kostir og gallar sameiningar en einnig tækifæri og ýmsar hugmyndir komið fram um hvernig styrkja eigi samkeppnishæfni og búsetuskilyrði samfélagsins alls.

Við erum öll Skagfirðingar.

Agnar Gíslason
Berglind Þorsteinsdóttir
Einar Kári Magnússon
Guðmundur Stefán Sigurðarson
Gunnhildur Gísladóttir
Helga Sjöfn Helgadóttir
Hrefna Hafsteinsdóttir
Laufey Leifsdóttir
Lilja Rún Bjarnadóttir
Margrét Eyjólfsdóttir
María Guðmundsdóttir
Sigurður Hansen
Sirrý Sif Sigurlaugardóttir
Sólborg Una Pálsdóttir
Vilhjálmur Agnarsson
Þórdís Sigurðardóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir