O, þiggðu það Álfhildur - og nokkur orð um göngur og aðeins um réttir o.fl.

Staðarréttin gamla á grundunum austan við Staðará, vestan undir Svarðarhól. Séð heim til Reynistaðar. Sölutjöldin má sjá fjærst til vinstri. Myndin hefur m.a. birst í II. bindi Byggðasögu. Mynd: Héraðsskjalasafn Skagfirðinga Atb 80.
Staðarréttin gamla á grundunum austan við Staðará, vestan undir Svarðarhól. Séð heim til Reynistaðar. Sölutjöldin má sjá fjærst til vinstri. Myndin hefur m.a. birst í II. bindi Byggðasögu. Mynd: Héraðsskjalasafn Skagfirðinga Atb 80.

Ég byrjaði að fara í göngur 1946, þá tíu ára, í fylgd með föður mínum og seinna bræðrum mínum. Gangnasvæðið Háheiði í Staðarfjöllum og fór ég flest haust til 1961; flutti þá í Varmahlíð.

Oft var sofið lítið nóttina fyrir göngur - vakna þurfti klukkan hálf fjögur; oftast farið af stað um klukkan hálf fimm - fimm. Fyrstu árin fórum við upp Brautarholtsás og hittum svo oft gangnamenn í lautinni uppi í Skarðinu en ávallt var stoppað smávegis þar; það mátti vera slæmt veður svo ekki væri tekið lagið og Dúddi sá um það - og þá jafnan sungið lagið Inn milli fjallanna. Þegar komið var í Hólasel var að verða sauðljóst. Seinna fóru allir gangnamenn upp Skörðugilsás.

Í fyrstu göngum var jafnan smalað Þverfell og Einbúi; lítill hluti gangnamanna þurfti í þessar smalanir, Einbúa þrír menn, Þverfell þrír til fjórir menn. Í Háheiðarrananum er svokölluð Kjaftalaut. Þar sameinast allur hópurinn og þar eru hnakktöskur leystar frá hnökkum og matast. Á mörgum bæjum tíðkaðist að slátra gangnalambi til að fá nýtt kjöt, sem var kærkomið. Ekki skemmdi ef tókst að bregða framparti í reyk í nokkra daga fyrir göngur og fá fínt bragð. Já, í Kjaftalautinni var matast.

Ekki var nú alltaf ákjósanlegt veður, kannski alhvítt af snjó - eða rigningarsuddi og kuldagjóla sem stundum leiddi til þess að setja þurfti upp vettlinga. Karlarnir staupuðu sig þá búið var að borða. Ég er svolítið hissa á að enn í dag er sami háttur hafður á, ekkert skýli þar komið til skjóls. Í Kjaftalaut er skipt göngum; fjórir til sex menn Miðdalsmegin, tveir milli Brúna og átta eða níu fóru svo Víðidalsmegin. Að sjálfsögðu voru misjöfn veður, stundum einmuna blíða en stundum gat skollið á hríðarveður og svo allt þar í milli.

Haraldur faðir minn sagði mér, fyrir margt löngu, frá atviki er skeði í Kjaftalaut skömmu fyrir 1940, sennilega 1937 eða 1938. Þá var hann í göngum í Háheiði og gangnamenn sátu í Kjaftalaut og voru að fá sér bita, Á næstu þúfu við föður minn sátu feðginin frá Elivogum, Tómas bóndi og ung dóttir hans, á að giska 14-15 ára. Faðir minn var að borða góðan kjötbita og sneiddi upp í sig með vasahnífnum. Unga stúlkan á næstu þúfu starði mjög á pabba og á kjötbitann, Fór það svo að faðir minn bauð henni bita af kjötinu.

Litla stúlkan varð feimin við þetta boð og hristi höfuðið. Þá segir faðir hennar Tómas: „O, þiggðu það Álfhildur.“ Sennilega hefur nú nesti þeirra feðgina verið lítið og fátæklegt. Varla getur maður gert sér í hugarlund sálarástand og hvað fór fram í huga þessarar litlu fátæku stúlku sem sat á þúfu í kjaftalautinni fyrir rúmum 80 árum. Fátækt á þessum árum var víða og kom fram í ýmsum myndum og m.a. olli fólki hugarangri, heilsutjóni og óteljandi hörmungum. Tómas Jónsson og ráðskona hans, Sigríður Jónsdóttir, ásamt börnum, voru síðustu ábúendur í Elivogum og bjuggu þar frá 1927-1939.

Ég minnist þess, seinni árin mín í göngum, þegar við komum með safnið niður á brún Staðaraxlar. Þá var komin girðing á brúnina, a.m.k. fyrir Reynistaðarlandi. Þar var að sjálfsögðu hlið. Minnist ég þess að gamall maður var þar mættur við hliðið á jörpum hesti. Þar var mættur Baldvin Jónsson í Dæli til þess að opna hliðið fyrir safninu. Það er nú svo að þegar bændur og búalið safnast saman til smölunar þá geta bestu menn umbreyst og kennt öllu öðru en sjálfum sér um ef eitthvað fer úrskeiðis í smöluninni - og næstum tryllast.

Það brást varla að Baldvin fengi skammir, annað hvort opnaði hann hliðið of snemma eða of seint. Baldvin var ágætis karl, var lengi vinnumaður á Reynistað og búinn að smala Framhnjúkana í áraraðir. En nú vildi hann hjálpa svolítið til, þó ekki væri í öðru en opna hliðið á brúninni í landi gamla vinnustaðarins. Ég held nú að karlarnir sem skömmuðu hann hafi oftast gefið honum sopa úr fleyg þá þeir hittu hann á brúninni og það þótti Balda gott.

Staðarrétt hin eldri var í notkun þar til ný rétt var byggð vestan Geitagerðis og lauk smíði hennar árið 1953. Mynd: Héraðsskjalasafn Skagfirðinga Atb 90.

Ég minnist gömlu Staðarréttarinnar sem staðsett var á bökkunum austan Staðarár og vestan við svonefndan Svarðarhól í landi Reynistaðar. Var það stór torfrétt, innri- og úthringur, en flestar milligerðir úr timbri. Á réttardaginn reisti Ellert bóndi í Holtsmúla tvö tjöld á bakka Staðarár. Þar seldu hann, kona hans og dóttir (Alda sem nú er búsett á Sauðárkróki, myndarkona og að sjálfsögðu falleg ung stúlka á þessum árum) kaffi og brauð. Ég minnist þess sérstaklega hvað reykti laxinn úr Staðará var góður með rúgbrauðinu og kaffinu.

Kallarnir sem komu í tjaldið höfðu, að ég held, meiri áhuga á kaffinu sem þeir bættu sennilega með landa. Ekkert sérstakt hefur mér í minni fest úr Staðarrétt. Réttarstörf gengu þar með hefðbundnum hætti. Þó er eitt: Ellert stórbóndi í Holtsmúla, sennilega fjárflestur ásamt Reynistaðarbúi á þessum árum, er mér minnistæður. Nokkuð stórskorinn með vænt yfirvararskegg, setti svip á fólkið í réttinni. Var í útprjónaðri peysu í pokareiðbuxum með tvo væna fleyga í sitthvorum rassvasanum - og bar vel á þeim, því hann var þannig klæddur. Var með vindil í munni, virðulegur maður og átti sér engan líkan í réttinni.

Dúddi, frændi minn á Skörðugili, sagði mér eitt sinn frá uppákomu sem skeði í gömlu réttinni við Staðará. Bændur úr Glaumbæjartorfu höfðu sameiginlegan dilk í Staðarrétt, fyrir fé og hross. Jón bóndi á Hóli í Sæmundarhlíð var fjallskilastjóri þeirra Staðhreppinga. Hann hafði grunsemdir um að bændur í Glaumbæjartorfu teldu ekki öll hross fram til fjallskila. Því var það eitt haust að hann hugðist telja stóðhross úr dilk þeirra Torfumanna þá þeir hleyptu þar út til heimrekstrar. Ekki var búið að opna dilkhliðið þá Jón bóndi snarast upp á réttarvegginn, en verið var að undirbúa heimrekstur.

Þá er það að Jónas, faðir Dúdda, snarar sér upp á vegginn til Jóns - þeir voru nú samt engir sérstakir vinir - grípur utan um hann og faðmar hann og þakkar honum fyrir allt gamalt og gott í gegnum árin. Í því bili missa þeir fótanna á réttarveggnum og velta niður í dilkinn. Torfumenn voru þá ekki seinir á sér og hleyptu stóðinu út, Ekki varð af talningu það haustið. Dúddi sagði nú að sennilega hefði ekki allt verið rétt tíundað til afréttar.

Ég minnist þess þá nýja Staðarréttin var byggð ofan við Geitagerði 1952 að þá voru bændur á svæðinu, þ.a.s. Seyluhreppi og Staðarhreppi, oft tilkallaðir þegar þurfti að steypa. Ég minnist þess einn þessara steypudaga að ég var sendur frá Brautarholti til að vinna við bygginguna. Einnig voru fleiri úr Seyluhreppi, m.a. man ég eftir Guðmanni í Geldingaholti og fleiri hafa vafalaust verið úr hreppnum.

Þennan dag var mjög leiðinlegt veður, rigning og vindur. Við aðkomumenn vorum að sjálfsögðu með eitthvað nesti með okkur til dagsins. Mér er það minnisstætt þegar Helgi bóndi í Geitagerði kom upp að réttinni um kaffileytið. Hann bauð okkur nokkrum úr Seyluhreppi heim í Geitagerði í kaffi - mér, Guðmanni og fleirum. Hann sá að okkur var kalt. Nutum kannski frændsemi, Guðmann við Helga, ég við Þóru konu hans.
Þetta festist í minni; Helgi var mikill heiðursmaður.

Ritað á þorra 2019
Sigurður Haraldsson

---

Áður birst í 10. tbl.  Feykis 2023

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir