Mjög sprækir og stemming yfir liðinu :: Liðið mitt Halla Rut Stefánsdóttir
Sókn er besta vörnin segir máltækið og ekki er verra að hafa prest í sókninni en sr. Halla Rut Stefánsdóttir er einmitt sóknarprestur í utanverðum Skagafirði, allt frá Hólum í Hjaltadal og út í Barð í Fljótum. Svo brandarinn sé mjólkaður meira þá getur presturinn jarðað andstæðinginn án þess að fá spjald.
Halla fékk áskorun frá Sveini Margeirssyni sl. vor um að svara spurningum í Liðinu mínu en vegna anna náði hún ekki að svara fyrr en nú. Umsjónarmaður þáttarins telur hins vegar ljóst að staða uppáhalds liðsins ráði miklu um þá seinkun enda uppáhaldsliðið í efsta sæti nú. Svo þessu óábyrga tali um Höllu Rut ljúki á vitrænum nótum þá fékk hún ekki að svara fyrr en þátturinn hæfist á ný eftir sumarfrí.
Hvert er uppáhalds liðið þitt í enska boltanum? -Arsenal, er búin að halda með þeim síðan ég var barn. Ástæðan fyrir því er að Guðbrandur, móðurbróðir minn, hélt með þeim og þá ég að sjálfsögðu líka.
Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Loksins, loksins er möguleiki á að vinna titilinn. Þetta eru búin að vera ansi döpur síðustu ár hjá liðinu, liðið vann deildina síðast 2003-2004.
Staðan góð hjá Arsenal.
Ertu sátt við stöðu liðsins í dag? -Já, mjög svo, eins og er eru þeir efstir. Þeir eru mjög sprækir og stemming yfir liðinu.
Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Já, já, en þó aðallega í den. Á vini og fjölskyldumeðlimi sem eru Manchester United fólk.
Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? - Thierry Henry. Ég hélt mikið upp á hann, skemmtilegur karakter og frábær leikmaður.
Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Já, hef farið tvisvar. Í bæði skiptin á Highbury. Sá Arsenal-Man U, sem fór 1-0. Thierry Henry skoraði sigurmarkið. Seinni leikurinn var á móti Charlton og unnu mínir menn þann leik.
Næsti leikur sem ég fer á er með Liverpool, er búin að lofa frændum mínum, sem eru Liverpool menn, að fara með þá á Anfield.
Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Ég á treyju og bolla.
Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? - Ekkert allt of vel.
Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Nei, og það get ég ekki ímyndað mér að myndi nokkurn tímann gerast.
Uppáhalds málsháttur? -“Orð eru til alls fyrst”
Halla, lengst til hægri, og stórfjölskyldan.
Einhver góð saga úr boltanum? -Það er oft gaman að rifja upp stemminguna sem var þegar farið var á leiki með Tindastóli í fótboltanum þegar ég var barn og unglingur. Þá fór öll stórfjölskyldan saman. Eftir leikinn var farið heim til ömmu og afa á Fornósi í vöfflur og kakó. Það voru oft líflegar umræðurnar við eldhúsborðið þar sem fullorðna fólkið rökræddi oft hressilega um leikinn, maður reyndi að fylgjast með og mögulega koma með eitthvað innlegg í umræðuna.
Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Ég man ekkert svona, held að ég hafi nú ekki mikið verið að hrekkja né orðið fyrir hrekkjum sem ég man eftir og eru sniðugir að segja frá.
Spurning frá Sveini Margeirssyni: -Hvort er betra: Matur hjá mömmu eða 4-0 sigur Arsenal á Man City?
Svar: -Matur hjá mömmu yrði alltaf fyrir valinu, en mikið ofboðslega yrði ljúft að vinna City 4-0, en ég held að það sé bara í fjarlægustu draumum.
Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Liverpool manninn Ragnar Þór Jónsson, sem er örugglega í skýjunum út þessa viku með sigur sinna manna á City.
Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Þar sem byrjun Liverpoolmanna er búin að vera ansi döpur þá verð ég nú að spyrja Ragga að þessu: Er Liverpool komið í gang eftir glæsilegan sigur á Man City um helgina?
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.