Íþróttamannvirki í Skagafirði
Uppbygging íþróttamannvirkja er mikið hagsmunamál fyrir íbúa Skagafjarðar. Hér hefur á liðnum árum og áratugum verið staðið myndarlega á bak uppbyggingu slíkra mannvirkja og er skemmst að minnast nýs upphitaðs gervigrasvallar á íþróttasvæðinu á Sauðárkróki, uppbyggingu glæsilegs landsmótssvæðis hestamanna á Hólum í Hjaltadal, nýrrar lyftu og snjótroðara á skíðasvæðinu í Tindastóli, gagngerra endurbóta á sundlaug Sauðárkróks, auk fyrirhugaðra áforma um byggingu nýs íþróttahúss á Hofsósi og lagfæringa á íþróttavelli í Varmahlíð.
Nauðsynlegt er að móta markvissa stefnu um uppbyggingu og viðhald á íþróttamannvirkjum í Skagafirði til langs tíma. Þar eru engar greinar undanskyldar og jafnframt nauðsynlegt að skapa sem ákjósanlegastar aðstæður í lífi, leik og starfi fyrir fólk á öllum æviskeiðum til almennrar heilsueflingar og lýðheilsu.
Meðal þess sem rætt er um í framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja í Skagafirði, að núverandi áföngum og áformum loknum, er uppbygging á fjölnota íþróttahúsi á Sauðárkróki. Það er öllum ljóst að íþróttahúsið á Sauðárkróki er meira en fullbókað og ræður illa við þau verkefni sem við viljum að húsið taki við. Við hjá Framsókn munum, ef við fáum brautargengi til þess, fylgja eftir samstarfi við UMSS um framtíðarstefnumörkun í íþróttamálum í Skagafirði og uppbyggingu íþróttamannvirkja, með það að markmiði að skapa sameiginlega sýn á forgangsröðun framkvæmda.
Það á að vera metnaðarmál hvers samfélags að standa vel að öllum grunninnviðum. Íþróttamannvirki og aðstaða til almennrar hreyfingar eru þar engin undantekning.
Fáum við stuðning þinn kjósandi góður þá munum við hjá Framsókn halda þessu verkefni vel á lofti og fylgja því fast eftir.
Er ekki best að hafa áhrif ?
X-B fyrir sterkari Skagafjörð
Sigurður B Rafnsson,
fjórði maður á lista hjá Framsókn í Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.