Fleiri gæðastundir – Áskorendapenninn Halldór Ólafsson, Skagaströnd
Árin færast yfir. Komin 46 ár í safnið en samt er bara einn afmælisdagur á ári. Það er bara eins og það sé alltaf að styttast á milli þessara daga. Margt gefur til kynna að ég verði að sætta mig við að vera orðinn miðaldra karlmaður. Aukinn hárvöxtur á hinum ýmsu líkamshlutum. Börnin allt í einu öll farin að stunda skólagöngu fjarri heimahögum. Tuttugu ár frá útskrift í Háskólanum á Akureyri aðra helgina í júní og beint í kjölfarið mjög svo ánægjulegir dagar á Akureyri þar sem að fagnað er tuttugu og fimm ára stúdentsafmæli frá M.A. Merkilegt hvernig tíminn getur læðst svona aftan að manni án þess að maður veiti því athygli. Ég er að sjálfsögðu bara tuttugu og fimm ára í huganum og ætla að vera það áfram þrátt fyrir öll áþreifanleg merki um annað.
Á slíkum endurfundum hittir maður gamla skólafélaga sem ekki verða á vegi manns dags daglega. Ákaflega ánægjulegar stundir en oftar en ekki berst fljótlega í tal við hvað fólk starfar og hvar það býr. Jú, ég er sjávarútvegsfræðingur sem starfa og bý á Skagaströnd. Við þessi svör fær maður stundum ákaflega skrítin viðbrögð viðmælenda. Það er nánast eins og maður hafi verið að tilkynna andlát nákomins ættingja eða slíkt því yfir viðmælandann færist auðmýkt og í augu viðkomandi færist sorg. Síðan kemur svarið: Já, ertu virkilega ennþá á Skagaströnd. Næstu mínúturnar fara síðan í það að að réttlæta fyrir viðkomandi þessa hryllilegu stöðu sína. Jú, konan sé nú í svo fjölbreyttu og ánægjulegu starfi, börnin hafi nú þrátt fyrir allt spjarað sig alveg prýðilega án þess að hafa umferðarljós, Kringlur og Smáralindir á hverju strái. Við hreinlega höfum komist í gegnum þessi ár með prýðilegum hætti og séum ekkert að huga að breytingu á búsetu. Uppákomur sem þessar gera mig sorgmæddan.
Lifnaðarhættir mínir og fjölskyldu minnar úti á landi undanfarin tuttugu ár hafa nefnilega bætt gæðastundum inn í líf okkar. Við notum minni tíma á hverjum degi til að koma okkur til og frá vinnu. Við höfum ekki þurft að skutlast með börnin okkar til þess að þau hafi getað notið tómstundastarfs. Þennan tíma höfum við getað nýtt til þess að gera það sem okkur langar til. Við höfum ekki þurft að panta sérstakan rástíma langi okkur í golf. Við bara mætum. Veiðitúra þarf ekki að ákveða með löngum fyrirvara. Við bara skreppum eftir vinnu og nótum úti í náttúrunni.
Ef ég gef mér að á 20 ára starfsævi hafi ég sparað mér 1 klst. á hverjum virkum degi í ferðir til og frá vinnu og vegna skutls með börn í leikskóla og tómstundastarf fæ ég út 4.400 klst. (220 x 20 x 1 = 4.400). Sé deilt í þær klukkustundir með 8 til að fá út vinnudaga þá gefur það reikningsdæmi 550 vinnudaga. Þeir vinnudagar ættu að öllu jöfnu að samsvara 2,5 ári miðað við 220 unna daga á ári.
Árin mín 46 hafa því kannski eftir allt saman bara verið nýtt til skemmtilegri hluta en gengur og gerist. Ég kýs alla vega að ganga út frá því.
Ég skora á Elínu Aradóttur framkvæmdastjóra á Hólabaki að taka við pennanum.
Áður birst í 26. tbl. Feykis 2018.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.