Ertu sjóðfélagi í Almenna Lífeyrissjóðnum?

Nú standa yfir  rafrænar kosningar í stjórn Almenna Lífeyrissjóðsins. Almenni Lífeyrissjóðurinn er ekki þessi hefðbundni sjóður þar sem stéttarfélög og atvinnurekendur skipa hvor sinn helming stjórnar, heldur er Almenni Lífeyrissjóðurinn opinn öllum og telur um 57 þúsund sjóðfélaga. Það er vel þess virði að ráðstafa nokkrum mínútum árlega í að kynna sér fólkið sem býður sig fram til þess að móta fjárfestingarstefnu fyrir eina af þínum stærstu eignum yfir lífsleiðina. Ég er einn af frambjóðendum ársins í ár og ég vil leggja áherslu á þrennt sem stjórnarmaður fái ég umboð sjóðfélaga til þess.

1 Áhyggjulaust ævikvöld
Það er fyrst og fremst hlutverk stjórnar að marka stefnu sjóðsins til þess að tryggja lágmarksávöxtun á lífeyrissparnað sjóðfélaga. Ég mun leggja höfuðáherslu á að ná sem mestri ávöxtun á sparnað sjóðfélaga. Þegar fólk hefur lagt sig fram um að vinna í þágu samfélagsins í tugi ára, finnst mér eðlilegt að því sé gert kleift að lifa áhyggjulausu ævikvöldi, hið minnsta hvað varðar innkomu. Það gerist ekki, nema við setjum það á oddinn að tryggja viðeigandi ávöxtun - en ég vil ekki setja punktinn þar.

2 Þín eigin fjárfestingarstefna
Ég vil auka frelsi sjóðfélaga til þess að ákveða hvernig séreignarsparnaði er fjárfest, a.m.k. þeirra sem hafa áhuga á því. Séreignarsparnaður er okkar eign sem erfist ólíkt samtryggingu sem rennur til annarra sjóðfélaga ef við föllum frá snemma. Í dag eru nokkrar ávöxtunarleiðir í boði, en ég sé fyrir mér nýja leið þannig að hver og einn sjóðfélagi geti sett eigin fjárfestingarstefnu fyrir sína séreign með reglulegu millibili. Slík breyting hefur hvorki áhrif á samtryggingasjóð né séreignarsparnað annarra sjóðfélaga. Ég hlakka til að vinna með öðru stjórnarfólki, starfsfólki og sjóðfélögum að útfærslum að auknu frelsi nái ég kjöri. Ég tel að með því að veita fólki aukið frelsi við ávöxtun séreignarsparnaðar mætti vekja áhuga fólks á lífeyrismálum og þannig auka líkur á því að ein stærsta fjárfesting ævinnar verði hámörkuð.

3 Vekjum áhuga strax í upphafi
Fæstir hafa mikinn áhuga á lífeyrismálum, en lífeyrissparnaður á einni starfsævi er líklega á bilinu 40-100 m.kr. fjárfesting hjá flestum á núverandi verðlagi. Málshátturinn „Í upphafi skyldi endinn skoða” á vel við um lífeyrissparnað. Það er mikilvægt að velja sér lífeyrissjóð þegar fyrstu skref á vinnumarkaði eru tekin og kynna sér ávöxtunarleiðir, möguleika til að nýta sparnaðinn til fasteignakaupa o.s.frv. Nái ég kjöri til stjórnar vil ég nýta tíma minn utan hefðbundinna stjórnarstarfa til þess að kynna lífeyrismál fyrir ungu fólki, t.d. með heimsóknum í framhaldsskóla um land allt. Þar sé ég fyrir mér að hægt verði að fá nemendur til þess að vinna raunhæf verkefni sem opna augun þeirra fyrir áhrifum lífeyrissparnaðar yfir ævina.

Getur þú kosið?
Almenni Lífeyrissjóðurinn er starfsgreinasjóður lækna, arkitekta, tæknifræðinga, hljómlistamanna og leiðsögumanna en einnig getur um helmingur launþega valið að greiða í sjóðinn og margir hafa gert það í gegnum tíðina án þess að muna eftir því. Til þess að hugmyndir mínar nái fram að ganga þarf ég á öflugu umboði sjóðfélaga að halda. Rafrænar kosningar eru í gangi til 29. mars og ég óska eftir þínum stuðningi, hvort sem þú getur kosið eða látið vini og vandamenn vita. Margt smátt gerir eitt stórt og í krafti fjöldans er hægt að gera breytingar til hins betra.

Kristófer Már Maronsson
Höfundur er hagfræðingur og býður sig fram í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins.

- smelltu hér til að kjósa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir