Ég vil gjarnan að sveitarfélögin sameinist – Feykir spyr
Þyrey Hlífarsdóttir, grunnskólakennari, starfar í Varmahlíðarskóla, gift Degi Þór Baldvinssyni, hafnarstjóra Skagafjarðarhafna, og saman eiga þau þrjú börn. Síðasta sumar fluttu þau Dagur á æskuslóðir Þyreyjar í Víðiholt og segir hún þau því orðin sveitafólk, þó svo eitthvað fari minna fyrir búskapnum hjá þeim, a.m.k. enn sem komið er.
„Það er dásamlegt að búa í sveitinni og forréttindi að fá að starfa í Varmahlíðarskóla þar sem ég var sjálf nemandi alla mína grunnskólagöngu. Börnin okkar sækja skóla, íþróttir og tómstundir bæði í Varmahlíð og á Sauðárkróki auk þess sem maðurinn minn vinnur á Sauðárkróki. Það er það sem er svo frábært við samfélagið okkar hér að við getum sótt þjónustu og atvinnu eftir því sem okkur hentar óháð búsetu.“
Í tilefni sameiningarkosninga sem fram fara þann 19. febrúar nk. var nokkur kosningabragur á Feyki þessa vikuna líkt og í þeirri síðustu enda ærin ástæða til. Rétt til að heyra í hinum almenna borgara sendi Feykir, af handahófi, nokkrum einstaklingum úr sitthvoru sveitarfélaginu í Skagafirði spurningar til að kanna hug þeirra til verkefnisins.
Hvernig líst þér á að sveitarfélögin í Skagafirði verði sameinuð? -Mér líst nokkuð vel á það ef sveitarfélögin í Skagafirði verða sameinuð.
Hvað telur þú jákvætt? -Það sem ég tel jákvætt við sameiningu er að ég tel að við stöndum sterkari sem ein heild. En þá þurfum við líka að standa saman sem ein heild.
Hvað neikvætt? -Ég veit ekki hvort mér finnst eitthvað vera neikvætt við sameiningu, ég vil gjarnan að sveitarfélögin sameinist.
Hvernig telur þú að sameining eigi eftir að breyta þinni afkomu ef nokkuð? -Ég tel svo sem ekki endilega að sameiningin muni breyta minni afkomu sérstaklega.
Hefur þú fylgst með umræðum og skrifum á heimasíðu sameiningarnefndar skagfirðingar.is?
-Ég hef aðeins fylgst með því já og svo auðvitað tekið þátt í umræðum í samfélaginu.
Er eitthvað sem þér finnst tortryggilegt sem sett er fram um hugsanlega sameiningu?
-Nei, ég get ekki sagt það.
Er eitthvað þar sem þú ert virkilega sammála? -Get svo sem ekki nefnt eitthvað eitt sérstakt, eins og ég sagði áður þá tel ég að við stöndum sterkari saman heldur en í sitt hvoru lagi.
Hvað gætir þú hugsað þér að sameinað sveitarfélag myndi heita? -Ég hef ekki myndað mér sérstaka skoðun á því og tel ekki að það sé það sem skiptir mestu máli.
Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri? -Ég vil minna fólk á að kjósa.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.