Vonir um sólskin í næstu viku – en fyrst rignir
Veðrið hefur ekki farið á neinum sérstökum gleðikostum síðasta mánuðinn hér á Norðurlandi vestra og fáir dagar sem hafa fært fólki sanna sumargleði. Eitthvað virðast þó horfur vera betri framundan og sólin óvenju oft í veðurkortum næstu viku og talsverðar líkur á að hitastigin gæli við tveggja stafa tölur til tilbreytingar. Fram að helgi munu veðurguðirnir þó láta vatnsdæluna yfir okkur ganga og vinda yfir okkur síðustu dropana í bili um helgina.
Það er semsagt spáð rigningu í kvöld og fram á laugardagsmorgun en þá dregur úr. Hitastigin verða töluvert færri en regndroparnir en almennt er spáð fjögurra til sjö stiga hita næstu daga, hvessir að norðan með kvöldinu. Eða eins og spáin segir: „Norðan 5-13 m/s og rigning eða súld með köflum, en samfelld rigning annað kvöld. Norðan 8-15 og rigning á morgun, hvassast á Ströndum. Talsverð úrkoma á Ströndum og Tröllaskaga. Hiti 4 til 9 stig.“
Í dag er staðan þannig að spáin fyrir mánudag gerir ráð fyrir sólskindi og hækkandi hita. En hitinn og sólin er að sjálfsögðu ekki í hendi þó spáin sé falleg.
UPPFÆRT kl. 16:00! Svo hefur bætt í rigningarspá Veðurstofunnar fyrir næsta sólarhringinn að komin er gul viðvörun á Norðurland vestra og Strandir. Hún tekur gildi kl. sex í fyrramálið og stendur til miðnættis.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.