Vill nýta sína reynslu til góðs | Ásdís Rán
Laugardaginn 1. júní stingum við Íslendingar okkur inn í kjörklefa og setjum x við þann frambjóðanda sem við viljum sjá sem forseta þjóðarinnar næstu fjögur árin. Aldrei áður í sögu lýðveldisins hafa jafn margir einstaklingar skreytt kjörseðilinn eða hvorki fleiri né færri en tólf. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir forsetaefnin og gáfu þau sér öll tíma til að svara. Hér að neðan má lesa svörin sem Ásdís Rán Gunnarsdóttir gaf Feyki.
Hvers vegna á fólk að kjósa þig? - Ef horft er til almennrar reynslu minnar og þess að ég hef ekki haft nein bein tengsl hvort sem horft er til stjórnmála, stofnana, hagsmunahópa eða sérstakra baráttumála þá held ég að þetta samanlagt gefi mér mikilvægt hlutleysi og þar með styrk til að gegna embættinu. Ég tel mig hafa margt gott upp á að bjóða til að þjóna þjóðinni vel og hef mikla reynslu af því að koma fram opin-berlega fyrir hönd þjóðarinnar bæði erlendis og hérlendis.
Af hverju langar þig að verða forseti Íslands? - Ég hef mikinn áhuga á því að hvetja til góðra verka í samfélaginu og nýta mína reynslu til góðs. Forsetastarfið eflist ekki nema því þjóni fólk með ólíkan bakgrunn, mismunandi áherslur og leiðtogafærni. Svo finnst mér vera kominn tími fyrir drottningu á Bessastaði!
Hvað hefur komið þér mest á óvart í baráttunni um Bessastaði? - Það er það kannski hvað þessari baráttu er stjórnað algjörlega af fjölmiðlum og skoðanakönnunum. Þetta er risa afl sem er erfitt að eiga við og því er stýrt hverju sinni hver kemst áfram eða verður forseti.
En nú er komið að því að fagna uppskeru af kosningabaráttu síðustu mánaða og ég er mjög stolt af því að hafa komið með ferskan og jákvæðan blæ inn í framboðsferlið fyrir forsetakosningarnar að þessu sinni. Hversu mörg atkvæði koma í hús á laugardaginn breytir engu þar um. Við höfum skapað fordæmi sem felur í sér hvatningu til fólks um að losa sig undan fjötrum staðnaðra viðhorfa og láta reyna á hið ómögulega sem við trúum að oftar en ekki sé upphaf á farsælli vegferð. Barátta okkar er og verður sigur í kosningunum því okkur tókst það ógerlega að koma úr óvæntri átt askvaðandi inn á svið þjóðmála og mála bæinn rauðan. Tefla fram kynþokka og frösum sem lifa, krydda tilveruna með glaðværð og léttleika og síðast en ekki síst vekja fólk til umhugsunar og þar með að hafa okkar áhrif á samtímann. Þetta er það sem stendur eftir um ókomin ár.
Hver hefur verið stærsta áskorunin í þínu lífi? - Ég hef verið frekar dugleg að skora á sjálfa mig í hinum ýmsu verk-efnum í lífinu en mér finnst nú líklegt að það að fara í forsetaframboð hafi verið ein af þeim stærstu hingað til! Það er gífurleg áskorun að taka þessa ákvörðun og líka áhætta, sérstaklega þegar þú ert þjóðþekkt persona og það er algjörlega dulið hvort þessi vegferð eigi eftir að koma sér vel eða illa. Þannig að þetta er svolítið eins og rússnesk rúlletta.
Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? - Nú er ég bara makalaus og hann ófundinn.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? - Ég hef mikið dálæti af dýrum og eitt af því fyrsta sem ég ætlaði að verða var dýralæknir, ég endaði með því að fara allt aðra leið og sé svolítið eftir því í dag að hafa ekki látið verða af þessum draum :D
Bessastaðir eru ágæt búskaparjörð, til dæmis er þar ágæt fjörubeit fyrir sauðfé meira og minna allan veturinn. Hefur þú í hyggju að stunda búskap á Bessastöðum ef þú verður forseti? - Ég myndi líklega láta húsdýrin duga en ég gæti alveg hugsað mér að vera með 2-3 hesta, svo fylgja mér kettir og mjög líklegt að ég bæti við nokkrum varðhundum.
- - - - -
Allir fengu frambjóðendurnir sömu spurningarnar. Tilviljun og rými réðu því í hvaða röð forsetaefnin fóru á síður pappírsútgáfu Feykis. Birtingartíminn hér á Feykir.is er öfug röð miðað við blaðið en viðtölin munu birtast frá miðvikudegi til föstudags. Feykir þakkar forsetaefnunum fyrir að gefa sér tíma til að svara.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.