Vill halda á lofti kyndli frjálslyndis og umburðarlyndis | Arnar Þór Jónsson

Arnar Þór og Hrafnhildur kona hans.
Arnar Þór og Hrafnhildur kona hans.

Laugardaginn 1. júní stingum við Íslendingar okkur inn í kjörklefa og setjum x við þann frambjóðanda sem við viljum sjá sem forseta þjóðarinnar næstu fjögur árin. Aldrei áður í sögu lýðveldisins hafa jafn margir einstaklingar skreytt kjörseðilinn eða hvorki fleiri né færri en tólf. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir forsetaefnin og gáfu þau sér öll tíma til að svara. Hér að neðan má lesa svörin sem Arnar Þór Jónsson gaf Feyki.

Hvers vegna á fólk að kjósa þig? - Ég er löglærður og þekki stjórnskipun Íslands vel. Ég hef unnið inn í stjórnkerfinu og þekki innviði þess vel. Ég hef starfað bæði inni á Alþingi, í dómstólakerfi og í stjórnsýslunni. Sú reynsla getur komið að góðum notum þegar á reynir. Sem dómari hef ég þjálfast í að horfa á mál frá öllum hliðum áður en ákvörðun er tekin. Ég er góður hlustandi og treysti mér til þess að taka ákvarðanir út frá því sem ég tel réttast á grundvelli laga og réttar með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Af hverju langar þig að verða forseti Íslands? - Forseti er þjóðhöfðingi. Forseti hefur og ber ábyrgð sem slíkur, inn á við og út á við. Forsetinn er þjónn fólksins í landinu og tengiliður fólksins í landinu og rödd þess gagnvart ríkisstjórn, gagnvart Alþingi, ríkis-stjórn og öðrum handhöfum ríkisvaldsins. Forsetinn á að standa vörð um stjórnarskrá lýðveldisins, lýðveldis stjórnarformið og lýðræðislega stjórnarhætti. Ég sé fyrir mér að forseti geti valdeflt Íslendinga til að hvetja þá til að nýta styrkleika sína betur.

Brýnustu viðfangsefni Íslendinga nú eru að standa vörð um auðlindir landsins þannig að þær þjóni þeim sem að hér búa og vernda Íslenska náttúru, vernda tungumálið, verja tjáningarfrelsið, verjast ofríki og valdboði, halda á lofti kyndli frjálslyndis og umburðarlyndis. Forseti á að láta allt þetta sig varða.

Hvað hefur komið þér mest á óvart í baráttunni um Bessastaði? - Mér hefur komið á óvart hversu mjög ég hef þurft að berskjalda sjálfan mig bæði persónulega og tilfinningalega. Um leið vil ég segja að ég er ekki að kvarta yfir þessu því mér var ljóst að þetta framboðið myndi reyna á mig á nýjan hátt. Þótt þetta hafi á sinn hátt verið erfitt finn ég líka að þetta hefur verið styrkjandi.

Hver hefur verið stærsta áskorunin í þínu lífi? - Að fylgja eigin sannfæringu og vera trúr samvisku minni. Í lífinu þurfum við að fara yfir margar krossgötur og þá er nauðsynlegt að hafa þessa áttavita rétt stillta og minna sig á hvert ferðinni er heitið og hvað geti talist góð ákvörðun hverju sinni.

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? - Í unglingapartýi í Hegranesi í Garðabæ árið 1990, þar sem ég bjó á þeim tíma og við Hrafnhildur búum enn.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? - Ég var spurður að þessu þegar ég var sex eða sjö ára og mun hafa svarað því þannig að ég ætlaði bara að verða „venjulegur maður“. Þar var ég að lýsa manni sem stundar sína vinnu af kostgæfni, er reglusamur, hugsar vel um konuna sína og börnin, á gott heimili og er í stuttu máli öðrum til styrktar og stuðnings, en ekki til baga. Ég hef þekkt marga slíka menn um dagana og haft þá sem fyrirmyndir.

Bessastaðir eru ágæt búskaparjörð, til dæmis er þar ágæt fjörubeit fyrir sauðfé meira og minna allan veturinn. Hefur þú í hyggju að stunda búskap á Bessastöðum ef þú verður forseti? - Ég var í sveit sem unglingur og í kosningabaráttunni hef ég kynnt mér nútíma landbúnað um allt land. Í amstri kosningabaráttunnar sé ég jarðtengda tilvist bóndans í hillingum. Ég myndi hafa mikla ánægju af endurnýjaðri umgengni við hesta og sauðfé. Geitabúskapur gæti einnig hentað mér vel.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir