Unnið að borun á 1.200 m vinnsluholu að Reykjum
RARIK var með níu jarðstrengsverkefni með samtals 123 km af strengjum á Norðurlandi á síðasta ári en þetta kemur fram í yfirferð um verkefni ársins 2023 á heimasíðu RARIK. Sjö verkefnum er þegar lokið en þar af voru þrjú hér á Norðurlandi vestra; í Hrútafirði, Miðfirði og Fitjárdal.
Verkefnum í austanverðum Svínadal í A-Hún. (33 km) og frá Laxárvatni að Blönduósi (8 km) er ekki lokið. „Í Svínadal er ólokið um 8 km lögn sem frestast fram á næsta vor og þverun yfir Blöndu er ólokið fyrir lögnina frá Laxárvatni. Á árinu var einnig lokið við tengingar í verkefnum frá árinu 2022 í Hjaltadal og í Langa- og Svartárdal,“ segir í umfjölluninni.
Þá kemur fram að skipt var um spenni í nýrri aðveitustöð á Skagaströnd í byrjun síðasta árs og lokið var byggingu yfir spenni í stöðinni í Varmahlíð og spennir sem áður var á Sauðárkróki var fluttur í stöðina. „Í sumar hófst vinna við byggingahluta sem áður hýsti varaafl á Laxárvatni og var honum breytt í rofasal fyrir tvo spenna. Ætlunin er að þar verði settir upp tveir spennar á næsta ári til að mæta auknu álagi en einnig á að endurnýja og stækka núverandi spenni í tengivirkinu á Laxárvatni. Á árinu hófst lögn 33 kV strengs frá Laxárvatni að Skagaströnd. Í ár var strengurinn lagður að Blöndu, samhliða nýjum stofnstreng fyrir Blönduós. Ætlunin er að ljúka strenglögninni á næsta ári,“ segir á síðu RARIK.
Fyrir Hitaveitu Blönduóss og Skagastrandar voru á árinu boraðar fimm hitastigulsholur (borholur í leit að jarðhita) en þær voru um 500 m að dýpt í og við vinnslusvæði veitunnar að Reykjum við Húnavelli. Leitin er gerð með það í huga að tryggja aukna orku á svæðinu. Í framhaldinu var ákveðið að bora 1.200 m vinnsluholu á svæðinu. Samið var við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. (Ræktó) um þá borun og hófst sú borun í nóvember en reiknað var með að borun lyki nú í byrjun árs.
Heimild: Rarik.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.