Torskilin bæjarnöfn :: Marbæli á Langholti

Marbæli 10. júlí 2000. Horft til norðausturs yfir Hegranes til Óslandshlíðafjalla en Ásgeirsbrekkufjall til hægri. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar II. bindi.
Marbæli 10. júlí 2000. Horft til norðausturs yfir Hegranes til Óslandshlíðafjalla en Ásgeirsbrekkufjall til hægri. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar II. bindi.

Samnefni við þetta nafn munu aðeins vera tvö á landinu: Marbæli í Óslandshlíð og Marbæli í Eyjafjarðarsýslu. Þar hjet í öndverðu Hanatún, eftir Eyvindi túnhana, sem bygði þar fyrstur (Landnámabók, bls. 155). (Í nýju jarðabókinni 1861 finst þó hvorugt nafnið). Marbæli í Óslandshlíð er meðal annars nefnt í Kúgildaskrá Hólastaðar frá 1449, og í Sturlungu (I., bls. 193).

Jafnvel þótt Marbæli á Langholti finnist á hinn bóginn í yngri heimildum (sjá Sigurðarregistur, árfært 1525, Dipl, Ísl. IX., bls. 301), er engin ástæða til að efast um, að þetta sje hin upprunalega mynd nafnsins, eða a.m.k. mjög nærri því upphaflega. Nafni þessu er þannig háttað, að mjög erfitt er að ákvarða hina rjettu merkingu þess. Um Marbæli í Óslandshlíð má þó segja, að sje mjög líklegt, að dragi nafn af sjó = mar. Enda hefir víst orðið „mar“ í þeirri merkingu verið allmikið notað í fornmáli, sbr. marbakki í nútíðarmáli og líklega Marland (á Skaga) fyrir Malland, sem ávalt er nú sagt. Vel geta fleiri nöfn geymt sömu merkingu, þótt mjer sje ekki kunnugt um. (Ef til vill Margróf nálægt Jörfa, í Haukadal?).

Á hinn bóginn tel jeg fráleitt, að Marbælisnafnið á Langholti eigi skylt við þetta. Nema dregið væri af landinu neðan við, sbr. lýsingarorðið marflatur.

Og það virðist Finnur prófessor álíta (sjá ritgerð hans í Safni t.s. Ísl. IV. b., bls. 425). En þetta er þó ólíklegt, því landslag er þar ekki flatara en annarsstaðar á Langholti. Og bærinn stendur alllangt frá sjó. Í öðru lagi er hestkenningin marr vel þekt í eldra máli, og nafnið gæti alveg eins verið dregið af því - þ.e. staður þar sem hestur hefir legið. Hugsanlegt væri líka, að nafnið hefði upphaflega verið Márbæli af Márr, mannsnafn, en samt liggur það nokkru fjær en fyrri tilgáturnar.

Og loks gæti nafnið hafa verið upprunalega, sem örnefni, myndað af nafnorðinu mar (s. merja), þ.e. marið land = troðið og sundursparkað (orustustaður?). En þetta er alt óvíst, og óþarft að fara lengra í þá sálma.

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 24. tbl.  Feykis 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir