Tilraunagróðurhús í Húnabyggð hlaut 15 milljón króna styrk
SSNV og Húnabyggð hafa undirritað samning vegna styrks til nýtingu glatvarma frá gagnaverinu á Blönduósi. Í frétt á vef SSNV segir að til standi að reisa tilraunagróðurhús og veita frumkvöðlum aðgengi til að prófa og þróa vörur, og þannig gera svæðið eftirsóknarvert fyrir matarfrumkvöðla. Orka verður tryggð með sólarrafhlöðum. „Um er að ræða spennandi verkefni sem við erum sannfærð um að muni efla svæðið þegar litið er til framtíðar. Við hjá SSNV óskum Húnabyggð til hamingju með styrkveitinguna,“ segir í fréttinni.
„Innviðaráðherra auglýsti eftir umsóknum um framlög sem veitt eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar vegna verkefna sem tengjast aðgerð C1 eða sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða. Styrkjunum er ætlað að efla byggðir landsins og var úthlutað til sjö landshlutasamtaka sveitarfélaga.
Sigurður Ingi Jóhannsson þáverandi innviðaráðherra úthlutaði styrkjum til 10 verkefna á landsbyggðinni að upphæð 130 milljónum króna. SSNV sótti um fyrir hönd sveitarfélaga í landshlutanum og hlaut Norðurland vestra 40 milljónir króna í styrk til þriggja verkefna í landshlutanum, FabLab smiðja og aðstaða til nýsköpunar og þróunar í Húnaþingi vestra, samvinnurými á Skagaströnd og tilraunagróðurhús í Húnabyggð.
Við gleðjumst svo sannarlega fyrir þessum þremur styrkjum sem veittir voru í Húnavatnssýslum. Verkefnin munu öll koma til með að efla atvinnuþróun. Gróskan leynir sér ekki hér í landshlutanum og framtíðin er björt.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.