Það harðnar á dalnum hjá Húnvetningum
Það var spilað á Sjávarborgarvelli á Hvammstanga í dag í 21. umferð 2. deildarinnar í knattspyrnu. Þá tók Kormákur/Hvöt á móti Knattspyrnufélagi Austurlands sem hefur verið í toppbaráttunni í mest allt sumar en var rétt búið að missa af lest þeirra liða sem vilja fylgja liði Selfoss upp í Lengjudeildina. Leikurinn var því kannski ekki mikilvægur fyrir gestina en hann var það sannarlega fyrir lið Húnvetninga sem berst fyrir lífi sínu í deildinni. Það var lið KFA sem hafði betur, vann leikinn 1-3.
Gestirnir voru sterkara liðið í leiknum og þeir uppskáru mark á 38. mínútu en það gerði Eiður Örn Ragnarsson beint úr aukaspyrnu af löngu færi. Staðan 0-1 í hálfleik en það voru aðeins liðnar tvær mínútur af seinni hálfleik þegar Ingvi Rafn jafnaði metin eftir að markvörður gestanna hafði verið frá Hauki Inga í dauðafæri en boltinn barst á Ingva. Lið KFA sótti meira en næsta mark kom ekki fyrr en á 86. mínútu og þar var á ferðinni Jacques Sandem. Gestirnir gulltryggðu svo sigurinn þegar Nanni Guðmunds skoraði á þriðju mínútu uppbótartíma.
Staða Kormáks/Hvatar erfið fyrir lokaumferðina en liðið hefur aðeins náð einu stigi út úr síðustu fimm leikjum. Húnvetningar eru sem fyrr með 19 stig en KF er með 18 stig en piltarnir úr Fjallabyggð töpuðu 5-1 í dag gegn liði Hauka. Það ræðst því í lokaumferðinni hvaða lið fellur með Reyni Sandgerði en auk Kormáks/Hvatar og KF er KFG í fallhættu með 20 stig. Í lokaumferðinni mætir KFG botnliði Reynis, Kormákur/Hvöt sækir Víking Ólafsvík sem er í bullandi toppbaráttu en KF fær Hött/Huginn í heimsókn á Ólafsfjörð en þeir töpuðu í dag á heimavelli gegn Reyni Sandgerði og því kannski ólíklegir til að gera Húnvetningum greiða.
En miði er möguleiki og nú er bara að setja kassann út og eiga toppleik á Ólafsvík. Áfram Kormákur/Hvöt!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.