Það eru bara 25 tímar í sólarhringnum...
Björgvin Brynjólfsson býr í Vogahverfinu í Reykjavík en er alla jafna einn alharðast stuðningsmaður Kormáks/Hvatar í fótboltanum og einn af spekingunum á bak við aðdáendasíðuna. Þá er kappinn formaður meistaraflokksráðs liðsins en er að auki gæðastjóri hjá Vegagerðinni. Þar sem hann fékk óvart sendan spurningalista sem fylgdi nokkurra ára gömlu ársuppgjöri hefur Feykir upplýsingar um að Björgvin er sporðdreki „...með öllum tilheyrandi kostum og löstum.“ Þau þrjú orð sem honum finnst lýsandi fyrir árið eru; árangur uppferð og hamingjja – sem segir manni að árið hans hafi verið vel yfir meðallagi.
Hver er maður ársins? – Ég hugsa svo mikið um fótbolta að ég vel ég þá Ingva Rafn Ingvarsson og Sigurð Bjarna Aadnegard fyrir þeirra áralanga starf í þágu fótboltans á Norðurlandi vestra, sem náði upp á topp í sumar. Ég held að fólk átti sig almennt ekki á starf sjálfboðaliðans og bakbeina í félagsstarfi og muni ekki gera það fyrr en menn eins og þeir leggja skó á hillu. Ingvi tók við Kormáki Hvöt í öldudal, stabílíseraði skipið og sigldi því í höfn undir mjög krefjandi aðstæðum. Siggi gerði allt sem hægt er að ímynda sér innan vallar og utan og hefur gert í mörg ár.
Hver var uppgötvun ársins? – Persónulega voru þær tvær en tengjast mjög. Sú fyrri er að fatta að ég ætti eiginkonu sem þolir enn þá eftir öll þessi ár áhugamálið mitt, sem felst í því að reka fótboltalið hinum megin á landinu með ferðalögum í allskonar þorp, tugi skutla á Leifsstöð á öllum tímum sólarhringsins og samningaviðræðum við alla mannflóruna allt árið. Þetta tengist tilfinningunni sem helltist yfir mig á Blönduósvelli á 96. mínútu síðasta leiksins, Kormákur Hvöt 3-0 yfir og leikurinn löngu ráðinn. Uppgötvunin var að það er allt hægt ef maður leggur nógu skratti mikið á sig.
Hvað var lag ársins? – Ég er búinn að vera að syngja „Ég hylli þig Húnaþing“ í hausnum í allt sumar. Tengist fótboltanum að sjálfsögðu.
Hvað var broslegast á árinu? – Öll mómentin þar sem sjö ára dóttir mín talar eins og Árni Björnsson þjóðháttafræðingur sökum þess að hún á svo gamla foreldra. Líka histerísk viðbrögð eftir fótboltaleik á Akranesi í júní, þar sem bergmálshellir hlaðvarpa tók kollhnís af hneykslun.
Hvað var það sem þú sérð mest eftir að hafa ekki geta gert á árinu? – Fyrir utan öll umbótaverkefnin á heimilinu sem bíða, ókeyptu ræktarkortin og allt það, þá hefði ég viljað vera duglegri í að ferðast ó-knattspyrnutengt um Ísland og útlönd. Ég er alltaf á leiðinni í þessa helgarferð með frúnni, en eitthvað tefur það. Svo er ég ömurlegur í að delegera. Meira af því á næsta ári.
Varp ársins (sjónvarpsþáttur, útvarpsþáttur eða hlaðvarp)? Ég er nýlega dottinn í hlaðvarpið Drauga fortíðar, þar sem hver þáttur slagar í þrjá tíma af blaðri og dugar mér sem svefnmeðal í lágmark viku. Vökvar líka þorstann í tilgangslausan fróðleik mjög vel, sem eru mínar ær og kýr.
Matur eða snakk ársins: – Bjórarnir „Offsi“ og „Mundi“ slógu í gegn og fengu færri en vildu að súpa. Hið árlega biscotti sem ég bakaði á aðventunni heppnaðist óvenju vel og afmælismáltíð á Austur-Indíafjélaginu klikkar aldrei.
Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? – Ég er mjög hrifinn af því að henda öllum áhyggjum á brennur, helst daglega. Fíra upp í þeim með „þetta reddast“ og toppað með „allt fer einhvern veginn á endanum“. Annars stendur fátt upp úr sem eitthvað agnú ársins, frekar fínt ár að rúlla.
Hver var helsta lexía ársins? – Að það eru bara 25 tímar í sólarhringnum og það þarf að nýta þá vel, en ekki of vel. Á einhverjum tímapunkti þarf að hætta að segja já við spennandi verkefnum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.