Það er í nógu að snúast hjá Skotfélaginu Markviss

Frá skotsvæði Markviss á Blönduósi. MYND AÐSEND
Frá skotsvæði Markviss á Blönduósi. MYND AÐSEND

Fimm keppendur frá Skotfélaginu Markviss munu taka þátt á Norðurlandamótinu í Norrænu Trappi (Nordisk Trap) sem fram fer í Karlstad í Svíþjóð í lok ágúst. Gera má ráð fyrir milli 80-100 keppendum á mótinu frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Færeyjum og Íslandi.

Þetta er í annað skiptið sem íslendingum er boðin þátttaka en á síðasta ári fóru fjórir keppendur frá Markviss á mótið sem þá var haldið í Álaborg. Í tilkynningu frá Markviss segir að undirbúningur keppenda sé í fullum gangi og nýlokið sé æfingabúðum á Blönduósi undir stjórn hins velska Paul Gerwyn Morris sem unnið hefur með keppendum og þjálfurum félagsins undanfarin ár.

„Ekki er þó einungis verið að vinna í undirbúningi fyrir Norðurlandamót heldur er af nægu að taka á næstu vikum í starfi skotf.Markviss. Um Húnavöku verður Arctic Coast Open mótið í Skeet haldið að venju og að þessu sinni verður Norðurlandsmeistaramótið keyrt samhliða.

Keppendur á ferð og flugi

Um verslunarmannahelgina er svo von á góðum gestum frá Færeyjum en þá fer fram fyrsta Viking Cup mótið í Norrænu Trappi milli Skotfélagsins Markviss og Eysturskot. Stefnt er að því að Viking Cup verði árlegur viðburður sem haldinn verði sitt hvert árið hjá Markviss og í Færeyjum hjá Eysturskot. Helgina eftir versló verður svo Íslandsmótið í Norrænu Trappi haldið hér á Blönduósi.

Inn á milli þessara viðburða er svo keppnisfólk Skotfélagsins Markviss á ferð og flugi um landið við keppni á öðrum mótum.“

Þá kemur fram í tilkynningunni að helgina 12.-13. júlí sl. var haldið Íslandsmót í Benchrest skotfimi hjá Skotíþróttafélagi Suðurlands. Þar átti Markviss tvo keppendur, feðgana Jón Brynjar Kristjánsson og Samúel Inga Jónsson. Dagana 27.-28. júlí verður svo Íslandsmót í Compak Sporting á Akureyri og mun félagið einnig eiga fulltrúa þar.

Uppbygging á skotsvæði Markviss

Mikil uppbygging hefur verið á skotsvæði skotf.Markviss undanfarin ár og höfðu stjórnarmenn á orði síðastliðinn vetur að nú væri gott að staldra við og taka því rólega í sumar. Það hefur reynst erfitt, búið er að jarðvegsskipta í bílaplani,endurnýja klæðningu á palli við félagshús,leggja gervigras við Trap völl, setja upp veðurstöð og netvæða svæðið.

Framundan er að tengja vatnslögn inn í félagshús, setja upp fánastangir og fleira smálegt.

Ljóst er að á allra næstu árum þarf að koma upp stærra félagshúsi en 17 fermetra skúrinn er löngu sprunginn utan af starfsemi félagsins. Þá stendur hugur manna til að reisa skýli yfir Trap völl til að bæta aðstöðuna þar enn frekar.

Vonast stjórn Markviss til að njóta áframhaldandi velvilja sveitarfélaga og fyrirtækja hér á svæðinu þegar kemur að þeim verkefnum.

Félagið hefur vaxið og dafnað ár frá ári og eru nú á annað hundrað félagsmenn skráðir og iðkendur 2023 voru rúmlega 70 talsins.

/Unnið úr tilkynningu frá Markviss

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir