„Það er fólkið sem er ómissandi“

Kristín Ingibjörg Lárusdóttir viðburðarstjórnandi Húnavökunnar. MYND AÐSEND
Kristín Ingibjörg Lárusdóttir viðburðarstjórnandi Húnavökunnar. MYND AÐSEND

„Húnavaka þróast með hverju árinu þó við höldum alltaf í gamlar góðar hefðir líka. Fyrir tveimur árum gerðum við verulegar breytingar, m.a. á staðsetningu hátíðarsvæðisins. Við reynum ávallt að bæta við nýjum og spennandi viðburðum sem gera hátíðina enn skemmtilegri og fjölbreyttari,“ segir Kristín Ingibjörg Lárusdóttir, reynslubolti í stjórnun Húnavöku, þegar Feykir spyr hvort Húnavakan sé alltaf að vinda upp á sig. Dagskráin er sérlega metnaðarfull og glæsileg í ár en Húnavakan verður á Blönduósi dagana 18. til 21. júlí.

Eru einhverjar nýjungar í ár eða eitthvað sem þú ert mjög spennt fyrir? „Já, það eru nokkrar spennandi nýjungar í ár og ég er sérstaklega spennt fyrir Vilko vöfflu röltinu sem verður kl. 15:30-17:30 föstudaginn 19. júlí nk. þar sem tólf heimili bjóða heim í vöfflur. Vonandi er þetta viðburður sem er kominn til að vera hér í heimabæ vöfflunnar.“

Hverjir eru að þínu mati helstu dagskrárliðirnir? „Í dagskránni í ár er mikið af spennandi viðburðum. Við leggjum sérstaka áherslu á tónlist en það verða fimm tónleikar á Húnavöku þetta árið. Það verður líka mikið um að vera fyrir börnin og alla fjölskylduna. Ég bind miklar vonir við að það verði fjölmenni á kvöldvökunni á laugardagskvöldinu.“

Hverjir sækja Húnavöku? „Brottfluttir Húnvetningar eru duglegir að mæta. Fólk úr nágranna sveitarfélögum er líka duglegt að kíkja við. Við sjáum líka að það hefur orðið aukning í að ferðamenn, þá aðallega fjölskyldufólk, komi á Húnavöku. Svo fer þetta líka alltaf eftir blessaða veðrinu, en þá er bara að klæða sig eftir veðri.“

Gefur uppbyggingin í gamla bænum tækifæri á fjölbreyttari Húnavöku? „Já, klárlega, við fundum það vel í fyrra, það var mikill fjöldi fólks sem mætti á viðburði í gamla bænum. Til dæmis verða tvennir tónleikar í Krúttinu í ár og því von á mikilli stemmningu og ég hvet fólk sem hefur ekki séð þessa flottu breytingu sem hefur orðið í gamla bænum, að taka röltið eða rúntinn þangað.“

Hvað er skemmtilegast við Húnavöku – hvað er ómissandi? „Fólkið, samveran, gleðin og stemningin. Það er svo gaman að hitta gamla vini og kunningja. Það er fólkið sem er ómissandi.“

Hvað gefur hátíðin heimamönnum? „Hátíðin gefur heimamönnum tækifæri til að koma saman, gleðast, hitta fólk og njóta menningar og fjölbreyttrar skemmtunar.“

Er búið að panta rétta veðrið? „Já, og það er eins gott að veðurguðirnir standi sig, því þeir sviku okkur illilega í fyrra.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir