„Það byrjaði einhver prjónabylgja og maður hoppaði bara með á vagninn“

Hugrún Líf og Birgir Knútur með Aran Leví og Amalíu Eldey.
Hugrún Líf og Birgir Knútur með Aran Leví og Amalíu Eldey.

Hugrún Líf Magnúsdóttir býr á Sauðárkróki með kærastanum sínum, honum Birgi Knút, og tveimur börnum, Aran Leví og litlu stelpunni þeirra, Amalíu Eldey, sem fæddist 3. ágúst síðastliðinn.

Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir?

Ég reyndi einu sinni að prjóna peysu á mig þegar ég var 16-17 ára en náði bara að gera stroffið og þá var athyglin og áhuginn farinn. Ég byrjaði svo að prjóna stuttu eftir að Covid byrjaði, langaði að prjóna peysu á strákinn minn og var lítið annað á þeim tíma að gera en að finna sér eitthvert áhugamál og þá var kannski kominn meiri þroski og þolinmæði hjá manni.

Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust? Mér finnst skemmtilegast að gera peysur og ungbarnateppi. Stærri verkefni sem taka lengri tíma finnst mér skemmtilegust.

Hverju ertu að vinna að um þessar mundir? Ég var að klára peysu númer tvö á kærastann og var svo að byrja á peysu sem heitir Ynja fyrir systur mína.

Hvar fékkstu hugmyndina? Það byrjaði einhver prjónabylgja og maður hoppaði bara með á vagninn, sé alls ekki eftir því.

Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með? Ég held að ég sé ánægðustu með fyrstu peysuna sem ég prjónaði á strákinn minn, hélt mér myndi aldrei takast að læra að prjóna, þannig að það var stór sigur fyrir mig að klára hana.

Eitthvað sem þú vilt bæta við? Þú getur allt sem þú ætlar þér með smá þolinmæði. En það er ég að vinna með, þolinmæði hefur aldrei verið mín sterkasta hlið.

Áður birst í tbl. 38 Feykis 2021.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir