Stundum líður manni eins og við séum að spila berfætt á grýttum malarvelli
„Framundan er árleg vinna við fjárhagsáætlun sem á sér fastan sess í dagatali sveitarfélagsins. Sameining við Skagabyggð er nýlega formfest og nú er hafin vinna við að sameina fjáhag sveitarfélaganna en þau verða gerð upp sem eitt á þessu ári,“ segir Pétur Bergþór Arason, sveitarstjóri Húnabyggðar, þegar Feykir gabbar hann í að svara nokkrum spurningum tengdum Húnabyggð. Sveitarfélagið Húnabyggð varð til við sameiningu Blönduóss og Húnavatnshrepps sumarið 2022 og Pétur því fyrsti sveitarstjórinn.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstri Húnabyggðar? „Þær eru margs konar, sú sameining sem við hófum fyrir um tveimur árum er ennþá í vinnslu og önnur sem er reyndar minni í sniðum bættist við núna í sumar. Það hefur komið í ljós að sameining á tveimur sveitarfélögum af þessari stærð er áskorun miðað við stærð stjórnsýslu Húnabyggðar.“
Hverjir eru veikleikar Húnabyggðar og hvar liggja sóknarfærin? „Á fundi með ríkisstjórn Íslands á Sauðárkróki var farið yfir styrkleika og veikleika svæðisins. Veikleikarnir eru að sumu leiti augljósir og hægt að sjá í opinberum hagvísum. Á Norðurlandi vestra er t.d. minnstur hagvöxtur miðað við aðra landshluta, hér er fólksfjölgun minnst og opinber framlög t.d. í samgöngumálum því miður lægst og þar munar töluverðu miðað við þá landshluta sem mest fá.
Atvinnulífið hér er að vissu leiti einsleitt sem er ókostur og frumframleiðsla hlutfallslega há sem er ekki alltaf styrkur en gefur að sjálfsögðu kost á því að klára verðmætasköpun í viðkomandi virðiskeðjum og hámarka þannig verðmætasköpunina. Landbúnaður er þar að mínu mati augljóst dæmi, en landbúnaður á að mínu mati mikið inni hvað varðar nýsköpun til aukinnar verðmætasköpunar.
Í tilfellli orkuframleiðslu í Húnabyggð, sem er frumframleiðsla, fást litlar sem engar tekjur miðað við þau gríðarlegu verðmæti sem skapast með þeirri orku annarsstaðar á landinu. Sumir hafa bent á að þetta sé í raun þjóðlendustefna sem þurfi að leiðrétta, þannig að við sem gerum hina endanlegu verðmætasköpun mögulega fáum það sem okkur ber til að geta búið til blómlegt samfélag.“
Vöntun á samvinnu getur verið veikleiki
Hvað er það helst sem hægir á framþróun hjá sveitarfélögum hér á svæðinu? „Nú er hér mikill mannauður og mikið af fólki með frumkvæði og sjálfstæði fólks hér er yfir meðllagi mundi ég halda, þannig að það er ekki ástæðan. En þetta sjálfstæði á sér auðvitað aðra hlið sem er vöntun á samvinnu sem getur verið veikleiki. Ég er þeirrar skoðunar eftir að hafa skoðað ofan í húddið á þessu í tvö ár að lítil og veikburða sveitarfélög hafa því miður litla sem enga burði til að ná alvöru framförum til handa sinni íbúa. Ég er mikill talsmaður nýsköpunar sem hreyfiafls framfara og hagsældar og það verður að segjast að nýsköpun almennt séð á undir högg að sækja á okkar svæði, ekki síst nýsköpun sem byggir á tækniþróun og rannsóknum.
Á fyrrnefndum fundi með ráðherrum var þetta aðeins rætt, þ.e. að það þýðir ekki að dvelja við það að við séum sífellt að brenna af upplögðum marktækifærum, sem er rétt, við eigum alls ekki að skilgreina okkur út frá þeirri stöðu. En stundum líður manni eins og að við séum að spila berfætt á grýttum malarvelli á meðan aðrir spila leikinn vel skóaðir á rennisléttum gervigrasvöllum í upphituðum knattspyrnuhúsum.“
Nú er talið að með nýrri vinnsluholu Hitaveitu Húnabyggðar og Skagastrandar á Húnavöllum séu líkur á að afköst tvöfaldist. Hvað þýðir þetta fyrir sveitarfélögin, atvinnustarfsemi og íbúa? „Við bindum að sjálfsögðu miklar vonir við að ný hola muni skila verulega auknu magni inn í kerfið okkar og að þar með verði afhendingaröryggi tryggt til lengri tíma. Þetta er ennþá óljóst en við erum bjartsýn enda hefur verið skortur á heitu vatni hér um árabil. Þetta eru því miklar gleðifréttir og það verður spennandi að sjá hver útkoman verður þegar holan fer í fulla vinnslu. Það þarf ekkert að fjölyrða um það hvað aðgangur að heitu vatni er mikilvægur í allri atvinnuþróun og þróun íbúðabyggðar svæðisins.“
Hvað er erfiðast að eiga við í tiltölulega fámennu sveitarfélagi? „Það er mögulega ekki einhlýtt svar við þessu þ.e. hvenær hefur smæðin neikvæð áhrif o.s.frv. Það eru auðvitað til sveitarfélög sem eru mjög lítil en gengur samt vel vegna t.d. náttúrugæða sem þau hafa aðgengi að eða atvinnuvega sem eru sterkir. En það segir sig sjálft að með stærðinni koma auknar tekjur sem aftur gefa svigrúm til meiri framkvæmda o.s.frv. Fjöldanum fylgir aukin fjölbreytni og það er kannski aðalatriðið þ.e. einsleitni getur verið mjög erfið viðfangs og skapað stöðnun sem erfitt er að snúa sér út úr.“
Gamli bærinn getur verið eins og að vera með áttu í Ólsen
Hvaða máli skiptir uppbygging í gamla bænum og hvað gefur hún íbúum? „Gamli bærinn getur alveg verið eins og að vera með áttu í Ólsen og það er verkefni okkar að þróa þetta verkefni þannig að það verði um langa framtíð virðisaukandi fyrir alla íbúa svæðisins. Verkefnið er að mörgu leiti algjörlega einstakt og það er sennilega hvergi á Íslandi viðlíka dæmi um miðbæjarkjarna sem er eins upprunalegur og gamli bærinn á Blönduósi. Það er m.a. vegna þess að hinn eiginlegi miðbær færðist annað með flutningi þjóðvegarins á núverandi stað og því hefur svæðið verið óhreyft síðan um 1970 að frátöldum nokkrum húsum sem hafa verið rifin. Sumir sjá ekki galdurinn í þessu svæði við fyrstu sýn, þar er t.d. ekki neinn einn byggingarstíll í gangi sem er einkennandi. Hér ægir saman sýnishornum af mismunandi byggingarstíl frá öllum áratugum frá 1870 þegar byggð hófst þar til um 1970 þegar þróun svæðisins lauk. Það er ekki síst þessi staðreynd sem er galdurinn þ.e. tanngarðurinn er ekki skjannahvítur og beinn, heldur skemmtilega skakkur og allskonar.“
Hvernig gengur uppbygging á íbúðum fyrir lengra komna (eldri borgara), reiknarðu með áframhaldandi framkvæmdum af þessum toga? „Þetta verkefni hafa gárungarnir kallað Flórída norðursins og nú eru að rísa fyrstu húsin á þessu svæði í langan tíma. Búið er að steypa plötuna og í þessum töluðu orðum er verið að reisa húsin. Þetta verkefni opnar á það að stærri eignir á Blönduósi losni fyrir ungt fjölskyldufólk og að þannig fari ákveðin fasteignahringekja af stað sem væri mjög jákvæð fyrir vöxt svæðisins. Þetta opnar reyndar einnig á að fólk flytji til okkar sem væri einnig jákvætt. Ég er bjartsýnn á að þetta muni takast vel og að tilraunin verði tilefni til frekari uppbyggingar á Flúðabakkasvæðinu.“
Telurðu að sameiningar í Austur-Húnavatnssýslu hafi heppnast vel, eru íbúar almennt sáttir að þínu áliti? „Ég er þeirrar skoðunar að sameining Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps hafi tekist mjög vel. Eru allir sáttir? Nei. Hefði verið hægt að gera þetta betur? Já. Kollegar mína í Húnaþingi Vestra og annarsstaðar hafa sagt að þetta taki eitt til tvö kjörtímabil. Það er svolítið sérstakt til þess að hugsa að Húnaþing vestra hefur verið sameinað í yfir 20 ár! Eins og alltaf með hluti sem snerta tilfinningar fólks þá er ekkert rétt og ekkert rangt, þetta snýst um tilfinningar. Það verður að bera virðingu fyrir því og leyfa fólki að ferðast í gegnum þessar breytingar á sinn hátt. Það togast t.d. á skoðanir eins og að allt sé breytt og ekkert sé eins og það var og fólk saknar þess, en einnig að ekkert gangi nógu hratt og óþolinmæði yfir seinagangi og að ekkert breytist. Það getur verið mjög erfitt að sætta bæði þessi sjónarmið, en ég hef stundum sagt að það þýðir ekkert að fara á taugum yfir þessu, Blanda heldur áfram á renna. Sameiningarferlið milli Húnabyggðar og Skagabyggðar var einstaklega jákvætt og litaðist af uppbyggilegu samstarfi fólks sem sat saman í sameiningarnefnd verkefnisins. Þannig að nú þurfum við bara að hjálpast að með að slípa okkur saman og það mun taka þann tíma sem það mun taka.
Hvað varðar þessa sameiningar þá hefur að mínu mati verið unnið þrekvirki sem fáir átta sig á og fámenn skrifstofa sveitarfélagsins hefur einhvernvegin náð að komast í gegnum þetta nálarauga og ég er mjög stoltur af starfsfólki skrifstofunnar, grunnskólans, leikskólans og allra vinnustaða sveitarfélagsins sem hefur gert þetta á frábæran hátt.“
Okkur er best borgið saman frekar en í sundur
Skilurðu andstöðu íbúa á Skagaströnd við að vilja sameinast Húnabyggð? „Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki ennþá talað við Skagstrending sem hefur sagt við mig að hann/hún vilji ekki sameinast Húnabyggð. Það er mögulega út af því að ég tala ekki við nógu marga frá Skagaströnd, en ætli þetta séu svo margir þegar allt kemur til alls? Enn og aftur ég veit að fólk hefur tilfinningar og líður alls konar með þetta, en er þetta þeirra einlæga skoðun? Ég er með þá bjargföstu trú að hagsmunum íbúa svæðisins er best farið saman en í sundur. Það er auðvitað þjóðaríþrótt okkar Húnvetninga að vera ekki sammála síðasta ræðumanni, finnast gaman að gera grín að náunganum o.s.frv. Það er gott og blessað og skemmtilegt að mörgu leiti og sagnaarfurinn okkar byggir m.a. á þessu, en við erum samt ekki óskynsamt fólk og ég held að það komi fljótlega að því að við viðurkennum það fyrir sjálfum okkur og öðrum að okkur er best borgið saman frekar en í sundur.“
Eru vegabætur aðkallandi í Húnabyggð? „Þetta hef ég komið inn á áður og já, það eru mörg mjög aðkallandi verkefni hvað varðar samgöngur í Húnabyggð. Það vill stundum gleymast að fólk í dreifbýli á líka heima við götu og þarf að komast í vinnu og börn í skóla. Sjálfsagt öryggi fólks er því miður ekki tryggt og sumir vegir eins og t.d. í Blöndudal eru hreinlega hættulegir. Þá er þetta einnig mjög mikilvægt mál hvað varðar uppbyggingu ferðamannaiðnaðar á svæðinu og eins og áður segir um helmingur vegakerfisins malarvegir, sem er óboðlegt í nútíma samfélagi.“
Hvað finnst Húnvetningum um styttingu þjóðvegar 1 framhjá Blönduósi, á þjóðvegur 1 að tengja saman bæi landsins eða vera stysta leið milli tveggja punkta (Reykjavíkur og Akureyrar)? „Það eru skiptar skoðanir á þessu eins og gengur en það er algjörlega galið að tala um slíka framkvæmd á meðan að samgöngukerfi landsins er eins og það er í dag. Það eru ennþá tugir einbreiðra brúa á þjóðvegi 1, Öxnadalsheiði og Holtavörðuheiði eru miklir farartálmar á okkar svæði á vetrum o.s.frv. Þá væri einnig rétt að laga stöðuna í sveitarfélaginu okkar og á Norðulandi vestra áður en við förum að eyða milljarða tugum í gæluverkefni af þessu tagi. Það má skoða þetta einhverntímann en ef t.d. öryggi vegfarenda væri eitthvað sem skiptir máli, þá eru mörg verkefni á undan, en því hefur ranglega verið haldið fram að þess framkvæmd auki öryggi vegfarenda sem er ekki rétt.“
Mikið hefur verið um alls konar uppákomur í Húnabyggð eins og Húnavöku, Rabarbarahátíð, Vatnsdæluhátíð og Smábæjarleikar í knattspyrnu. Hvað hefst með svona dagskrám og hvað máli skipta þær? „Við erum með marga viðburði sem eru árlegir eins og þekkist í öðrum samfélögum víða um land og við erum heppin að þessir viðburðir eru orðnir rótgrónir og fastur punktur í tilveru okkar. Húnavakan t.d. sýndi í ár að hún á mikið inni og er sífellt að stækka og taka á sig aðrar og skemmtilegar hliðar. Við höfum síðan markvisst verið að prófa okkur áfram með fleiri svipaða viðburði sem eru minni í sniðum en hafa alla burði til að verða bæði árlegir og stærri.
Reyndar erum við ekki að reyna með þessum tilraunum að búa til risaviðburði heldur að vekja athygli á svæðinu og fá fólk til að sækja okkur heim. Sumir þessara viðburða eru einkaframtak og að mörgu leiti viljum við að það verði þannig að einkaframtakið sjái sér hag í að taka þetta til sín. Svona viðburðum fylgja ýmis konar umsvif, fólk þarf gistingu, mat o.s.frv. Þetta er líka einfaldlega gert til að hafa svolítið gaman af þessu, þ.e. skapa aðstæður þar sem fólk hittist, blandar geði og gerir sér dagamun. Að þróa menningarlíf svæðisins er gríðarlega mikilvægt verkefni. Það þarf að vera gaman að eiga heima í Húnabyggð og þar spilum við öll hlutverk bæði með framtaki og þátttöku í þeim viðburðum sem boðið er upp á.“
Stemningin getur samkvæmt mælingum bara farið upp á við
Nú hefur Austur-Húnavatnssýslan komið frekar illa út úr íbúakönnun landshlutanna sem gerðar hafa verið af SSV á þriggja ára fresti. Hver heldurðu að ástæðan sé og telurðu að það sé að verða breyting á stemningu meðal íbúa Húnabyggðar? „Það er erfitt að svara þessari spurningu án þess að alhæfa um fólk sem er eins misjafnt og það er margt en þetta liggur fyrst og fremst hjá okkur sjálfum. Það er ákvörðun að vera jákvæður eins og það er ákvörðun að vera neikvæður. Hver og einn hefur það val. Það er einn íbúi hér sem velur það að vera jákvæður á hverjum einasta degi leyfi ég mér að fullyrða og ég þreytist ekki á því að benda á hversu mikilvægt það er. Ég held að það sé engin ein ástæða fyrir þessu, þetta er flóknara en svo og svo þarf bara að tala meira við jákvæða fólkið þegar verið er að gera þessar kannanir. Hvað varðar stemningu þá getur hún samkvæmt mælingum bara farið upp á við og við erum umfram allt skemmtilegt fólk og ég trúi því að við getum verið jafn hamingjusöm og frændur okkar og frænkur í Húnaþingi vestra.“
Þú ert sveitarstjóri í fyrsta sinn, er þetta gefandi starf, er það öðruvísi en þú reiknaðir með? „Þetta er algjörlega allt öðruvísi en ég gat ímyndað mér. Það er reyndar gott því að það var ástæða þess að ég ákvað að taka þetta starf og gefa mér þessa áskorun sem hefur reynst ansi hressandi. Ég hafði enga reynslu í opinberri stjórnsýslu og það er áskorun fyrir alla í kringum mig. En ég hef lært gríðarlega mikið á stuttum tíma og þótt ég beri virðingu fyrir formlegheitum stjórnsýslunnar þá tel ég að hún hafi gott af því að vera hrist aðeins til, svona til að fá smá dass af nýsköpun og skapandi hugsun með í blönduna.
Allt þetta tæknilega þ.e. fjármál, ferlar o.s.frv. er ekkert sérlega flókið þegar allt kemur til alls, bara risastórt verkefni sem tekur tíma. En galdurinn í þessu er að búa til samfélag sem blómstrar þar sem fólk er hamingjusamt. Það er veruleg áskorun og er ekki bara verkefni sveitarstjóra, starfsmanna eða kjörinna fulltrúa. Það er sameiginlegt verkefni allra sem hér búa og aðeins þannig búum við til samfélag þar sem öllum líður vel.“
Hvað var gert í sumarfríinu? „Ég fór í hvíldarinnlögn á Mallorca í eina viku í byrjun júlí og hef síðan verið á leiðinni í frí, en sumarið kom bara aldrei...“
- - - -
Myndir frá Pétri sjálfum, Sigurði Inga Pálssyni, Valla Húnabyggð og Óla Arnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.