Strandveiðin gengur vonum framar
„Strandveiðin fer vel af stað og nægur fiskur í sjónum. Auðvitað eru dagar misjafnir og menn með mismikið en almennt eru menn að ná skammtinum og mikið líf og fjör sem fylgir þessari vertíð,“ sagði Baldur Magnússon hjá Skagastrandarhöfn þegar Feykir innti hann eftir því fyrir um viku hvernig strandveiðin færi af stað.
Hann segir aðeins færri á strandveiðum frá Skagaströnd í ár, eða 20 bátar. „Svo nokkrir flakkarar sem eru líka á Norðurfirði,“ segir Baldur.
Hvernig gekk grásleppuveiðin, voru sjómenn að hafa eitthvað upp úr krafsinu? „Grásleppan var ömurleg, menn gátu seint byrjað vegna brælu. Veiðin var svipuð og síðustu ár, fáir dagar að telja inn. Verð lélegt og menn því hreint ekki sáttir við sitt hlutskipti,“ segir Baldur.
Í aflafréttum í Feyki segir að heildaraflinn á Norðurlandi vestra dagana 18.-25. maí hafi verið 469.007 kg í 101 löndun og af þeim voru 64.565 kg lönduð af strandveiðibátunum sem má teljast mjög góð veiði á þessu svæði.
Það má svo minna á að sjómannadagshelgin er framundan hér á Norðurlandi vestra eins og um allt land. Skagstrendingar hefja hátíðarhöldin í dag þegar Hetjur hafsins fer í gang.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.