Stefnt að því að koma upp eftirlitsmyndavélum á Norðurlandi vestra

Fyrir byggðarráðum Húnabyggðar og Skagafjarðar lá nýlega erindi frá Lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra þess efnis að samstarfsnefnd lögreglu og sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (LNV) hafi haft til umræðu að taka í notkun eftirlitsmyndavélar lögreglu innan umdæmisins en umdæmið er eitt fárra lögregluumdæma þar sem slíkar myndavélar eru ekki í notkun.

Niðurstaða LNV er að hentugast sé að koma fyrir myndavélum með númeralesara við hvern byggðakjarna umdæmisins, sem greinir skráningarnúmer bifreiða sem fara um veginn. LNV leggur til að myndaður verði vinnuhópur til að vinna þarfagreiningu myndavéla hjá hverju sveitarfélagi fyrir sig. Þennan vinnuhóp mun LNV leiða. Auk fulltrúa frá LNV verði hópurinn skipaður einum fulltrúa frá hverju sveitarfélagi.

Af þessu tilefni sendi Feykir spurningar á LNV og voru það Birgir Jónasson, lögreglustjóri Norðurlands vestra og Ásdís Ýr Arnardóttir, forvarnafulltrúi embættisins, sem sátu fyrir svörum.

Eftirlitsmyndavélar eru væntanlega ekki það sama og hraðamyndavélar og koma ekki að gagni við að hafa hendur í hári þeirra sem aka greiðar en lög gera ráð fyrir? „Það er rétt, um er að ræða annars konar tækni. Myndavélarnar hafa fyrst og fremst það að markmiði að geta upplýst um þau ökutæki sem ekið er um umdæmið, t.d. í því skyni að upplýsa um ætlað afbrot. Til að mynda ef rekja þarf ferðir ökutækja um landið, með þessum hætti nýtist mannafli embættisins betur þar sem við látum tæknina um að lesa bílnúmer fremur en að hafa mannaðar lögreglubifreiðar úti á vegum að leita uppi ákveðin ökutæki.“

Þau segja að reyndar sé rétt að taka fram að um samstarfsverkefni lögreglu og sveitarfélaga sé að ræða sem rætt hefur verið á vettvangi samstarfsnefndar lögreglu og sveitarfélaga innan lögregluudæmisins og starfar á grundvelli 12. gr. lögreglulaga. „Þetta er því vilji beggja.“

Hvaða byggðakjarna er um að ræða? „Það er verið að tala um öll sveitarfélög umdæmisins. Það verður svo að ráðast hvort þetta eigi við um alla byggðarkjarna. Það er ákvörðun hvers sveitarfélags fyrir sig. Við teljum þó nokkuð ljóst að hver sem staðsetning eftirlitsmyndavélanna væri þá veita þær stuðning um löggæslu, óháð staðsetningu.“

Hvað vinnst með því að koma eftirlitsmyndavélum fyrir á svæðinu, hverjum og hvernig koma þær að gagni?„Að mati lögreglustjóra er tvímælalaus ávinningur af því að setja upp og reka eftirlitsmyndavélar í umdæminu, þar sem bæði er um að ræða tækni sem aðstoðar við að upplýsa um afbrot og einnig að stemma stigu við afbrotum í umdæminu. Myndavélarnar hafa því löggæslutilgang að markmiði, eins og hann er skilgreindur í lögum, þ.e. að koma í veg fyrir, rannsaka, koma upp um eða saksækja fyrir refsiverð brot eða fullnægja refsiviðurlögum, þ.m.t. að vernda gegn og koma í veg fyrir ógnir við almannaöryggi.“

Byggðarráð Húnabyggðar samþykkti samhljóða að skipa sveitarstjóra í vinnuhóp sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sem yfirlögregluþjónn embættis LNV mun leiða og skoða staðsetningar myndavéla í umdæminu. Þá samþykkti byggðarráð Skagafjarðar samhljóða að skipa sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs í umrædda nefnd fyrir hönd sveitarfélagsins. Eftir því sem Feykir kemst næst eiga Húnaþing vestra og Skagaströnd eftir að fjalla um málið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir