Slæmur skellur heimamanna á Blönduósi í dag

Nítjánda umferðin í 2. deild karla í fótbolta var spiluð í dag og á Blönduósi tóku liðsmenn Kormáks/Hvatar á móti Þrótti úr Vogum sem eru í baráttunni um sæti í Lengjudeildinni að ári. Þeir skoruðu strax í byrjun leiks og bættu við marki rétt fyrir hlé og eftir það sáu heimamenn ekki til sólar. Lokatölur 0-5 og Húnvetningar nú komnir í bullandi baráttu fyrir sæti sínu í deildinni.

Þróttarar fengu víti og úr því skoraði Ásgeir Marteinsson þegar þrjár mínútur voru liðnar. Hann var aftur á ferðinni á 45. mínútu og staðan því 0-2 í hálfleik. Þriðja markið gerði Jón Veigar Kristjánsson á 68. mínútu og sex mínútum síðar fékk Sigurður Bjarni Aadnegard að líta rauða spjaldið og var þá búinn að vera inn á í rúmlega korter. Á 82. mínútu gerði síðan Franz Bergmann Heimisson fjórða markið og á sjóttu mínútu uppbótartíma skoraði Egill Otti Vilhjálmsson fimmta mark Þróttar.

Fyrir umferðina voru Húnvetningar í níunda sæti en KFG lagði lið KFA í gær og komst þar með upp fyrir Kormák/Hvöt á töflunni. Þá mættust botnliðin tvö, KF og Reynir Sandgerði, á Ólafsfjarðarvelli í dag og hafði KF betur, 2-1. Þar með er lið KF nú komið með 18 stig en Kormákur/Hvöt með 19. Lið Reynis er svo gott sem fallið þannig að spurningin er hvaða lið fer niður með Sandgerðingum. Bæði liðin eiga eftir að spila við sterka andstæðinga í þremur síðustu umferðunum og líklegt að úrslitin ráðist ekki fyrr en í síðustu umferð.

Áfram Kormákur/Hvöt!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir