Skagfirsk sveifla á Frjálsíþróttaþingi um síðastliðna helgi
Frjálsíþróttamenn héldu sitt 64. þing í Skagafirði um helgina sem leið. Um var talað hve heimamenn í UMSS tóku vel á móti þingfulltrúum allsstaðar að af landinu í Húsi frítímans á Sauðárkróki. Þingið var sérlega starfssamt en fyrir því lágu 29 tillögur um hin ýmsu málefni frjálsíþrótta. Þar á meðal voru margar tengdar hlaupum og eflingu hlaupa, þar sem FRí fer með æðsta vald og ábyrgð.
Heimamennirnir og nafnarnir Gunnar Sigurðsson og Gunnar Þór Gestsson stýrðu þinginu af þekktri röggsemi sem þingforsetar.
Gunnar Þór ávarpaði raunar þingið einnig við setningu sem varaformaður UMFÍ.
Þá var einnig við þingsetningu minnst sérstaklega gullmerkishafans Ásbjörns Karlssonar sem starfaði áratugum saman fyrir FRÍ í stjórn og nefndum FRÍ auk margvíslegra starfa hér í héraði.
Tilkynnt var á þinginu um kjör tveggja nýrra heiðursfélaga FRÍ á þinginu, menn sem báðir tengjast Skagafirði. Það var annars vegar eldhuginn Ingimundur Ingimundarson, sem hóf sinn merka feril við þjálfun og félagsmál í frjálsíþróttum í Skagafirði, áður en hann reif upp allt starf í Borgarfirði og hins vegar annar eldhugi og forkólfur Gunnar Sigurðsson frá Stóru-Ökrum sem hefur verið í forystu í frjálsíþróttamálum bæði heima í héraði sem og á landsvísu.
Auk heiðursfélaganna hlutu fleiri Skagfirðingar verðskuldaða viðurkenningur en Friðrik Steinsson hlaut gullmerki sambandsins, Ómar Bragi Stefánsson silfurmerki og þau Thelma Knútsdóttir, Sigurður Arnar Björnsson og Theodór Karlsson öll eirmerki.
Þá var ekki síður skagfirsk sveifla á kosningunum þar sem þau Sveinn Margeirsson og Sonja Sif Jóhannsdóttir voru kjörin í aðalstjórn FRÍ en auk þeirra var Freyr Ólafsson kjörinn formaður og þau Auður Árnadóttir og Jóhann Haukur Björnsson endurkjörin í stjórn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.