Rabb-a-babb 222: Friðrik Halldór
Nú er það Austur-Húnvetningurinn Friðrik Halldór Brynjólfsson sem svarar Rabbinu en hann býr á Blönduósi ásamt eiginkonunni, Nínu Hrefnu Lárusdóttur og eiga þau tvö börn, Aron Frey 5 ára og Maríu Birtu 2 ára. Friðrik er fæddur sumarið 1988 en þá voru New Sensation með INXS og Dirty Diana með Michael Jackson að gera það gott á vinsældalista Billboard en Rick Astley var á niðurleið með Together Forever.
„Ég er sonur Brynjólfs Friðrikssonar og Jóhönnu Helgu Halldórsdóttur og er alinn upp í Blöndudal í Austur-Húnavatnssýslu. Fyrst á sveitabæ sem heitir Austurhlíð og svo fluttum við á næsta bæ við hliðina sem heitir Brandsstaðir. Foreldrar mínir eru bændur á Brandsstöðum með kýr og kindur,“ segir Friðrik Halldór þegar Feykir for-vitnast um hverra manna hann er.
Friðrik Halldór er með bókhaldsfyrirtækið og fasteignasöluna Búðu Betur ehf. ásamt konunni sinni. „Einnig starfa ég sem trúbador og sem söngvari og gítarleikari í hljómsveitinni Smóking,“ segir hann og þá liggur beint við að spyrja um hvað sé í deiglunni. „Byggja upp fyrirtækið okkar Búðu Betur ehf. og njóta gæðastunda með fjölskyldunni. Einnig er tölu-vert framundan í spileríi, bæði sem trúbador og með hljómsveitinni.“
Rabbið:
Hvernig nemandi varstu? -Ég var frekar samviskusamur nemandi og mér gekk ágætlega í skólanum.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? -Þegar mamma sléttaði á sér hárið. Mamma hefur alltaf verið með mjög mikið hrokkið hár og við ætluðum varla að þekkja hana þegar hárgreiðslukonan var búin að slétta á henni hárið. Það var mjög fyndið. Þetta var fyrsta og síðasta skiptið sem hún hefur sléttað á sér hárið.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? -Þegar ég var spurður 11 ára hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór, þá sagði ég viðskiptafræðingur og rokkstjarna. Ég er mjög glaður í dag að það rættist.
Hvert var uppáhalds leik-fangið þitt þegar þú varst krakki? -Körfuboltinn minn og reiðhjólið mitt.
Besti ilmurinn? -Ég myndi segja að lyktin af góðu kaffi sé ansi ofarlega á listanum.
Hvar og hvenær sástu núver-andi maka þinn fyrst? -Á skólasetningu í Húnavalla-skóla árið 2003.
Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? -Ég hlustaði mjög mikið á þungarokk á þeim tíma sem ég fékk bílprófið og uppáhaldshljóm-sveitin var Metallica (og er sennilega enn).
Hvernig slakarðu á? -Með því að lesa góða bók eða horfa á góða mynd. Einnig er góð hreyfing gulls ígildi.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? -Áramótaskaupið er eitthvað sem maður missir ekki af. Einnig hef ég mjög gaman af þáttum eins og Idol og The Voice.
Besta bíómyndin? -Harry Potter myndirnar eru í mjög miklu uppáhaldi hjá mér. Ég byrjaði að lesa bækurnar þegar ég var 10 ára og hef verið mjög mikill aðdáandi alla tíð síðan.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? -Ég myndi segja að það væri Michael Jordan körfuboltakappi í NBA deildinni. Ég hafði mjög gaman af því að fylgjast með honum spila.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? -Spila á gítar.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? -Að henda í skonsur.
Hættulegasta helgarnammið? -Súkkulaði.
Hvernig er eggið best? -Mér finnst súkkulaðieggin best.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? -Þegar ég gleymi að slökkva ljósin á eftir mér.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? -Þegar fólk kemur ekki fram við aðra af virðingu.
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? -Lífið er núna.
Hver er elsta minningin sem þú átt? -Ég að spila körfubolta í Austurhlíð mjög ungur ofan á steyptu haughúsi við fjósið þar sem pabbi var búinn að setja upp körfuboltahring með neti utan á fjósið. Þarna gat ég verið tímunum saman.
Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? -Ég myndi sennilega vakna sem James Hetfield sem er söngvarinn og gítarleikari í hljómsveitinni Metallica. Svo myndum við félagarnir í hljómsveitinni taka eins og eitt “gigg” fyrir svona 60.000 manns einhvers staðar.
Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? -Uppá-halds bækurnar mínar eru í raun tvær sem ég get ekki gert upp á milli. Annars vegar er það bókin The Magic of Thinking Big eftir David J. Schwartz og hins vegar bókin Vinsældir og áhrif eftir Dale Carnegie.
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? „Það er ekkert víst að þetta klikki.”
Hvaða þremur persónum vild-irðu bjóða í draumakvöld-verð? -Það hefði verið gaman að bjóða Nikola Tesla upp-finningamanni og snillingi, Abraham Lincoln Bandaríkja-forseta og Henry Ford bíla-framleiðanda í kvöldverð. Það eru miklar líkur á því að ansi forvitnilegar umræður hefðu átt sér stað í þeim kvöldverði.
Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? -Það væri gaman að ferðast aftur til þess tíma þar sem píra-mýdarnir í Egyptalandi voru byggðir og fylgjast með því hvernig þeir fóru að því.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? -Rokk og ról og bók-hald.
Framlenging:
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... Í fjölskyldufrí til einhvers sólarlands.
Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina:Gefa út plötur með lögunum mínum, ferðast til fleiri landa og sjá börnin mín vaxa úr grasi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.