Rabb-a-babb 230: Hákon Þór

Hákon Þór klár í slaginn. MYND AF ÍSÍ.IS
Hákon Þór klár í slaginn. MYND AF ÍSÍ.IS

Það er Hákon Þór Svavarsson sem svarar Rabbinu að þessu sinni en hann var einn af fimm keppendum Íslands á Ólympíuleikunum í París en Hákon Þór keppti í haglabyssuskotfimi, svokölluðu skeet, en þar er skotið á leirdúfur. Þetta sport hefur hann æft í 25 ár. Hann endaði í 23. sæti í París 2024, Íslandsmetið hans er 122 af 125 sem hann setti í fyrra og þá varð hann Norðurlandameistari 2022.

Aðspurður segist Hákon Þór ánægður með árangurinn sinn í París. En hvað ætli hafi staðið upp úr? „Að horfa á fólkið mitt uppi í stúku og stuðningurinn sem ég fékk heiman frá ÍSÍ, Skotíþróttasambandinu og frá fólkinu heima á Íslandi.“

Það sem Feykir ekki vissi fyrir hálfum mánuði var að Hákon Þór, sem býr á Selfossi, er Húnvetningur og líka Skag-firðingur reyndar. Hann er alinn upp í Litladal í Austur-Húnavatnssýslu, sonur hjón-anna Svavars Hákonar Jó-hannssonar og Sigurbjargar Þórunnar Jónsdóttur. Svavar er síðan bróðir Jóhanns Más í Keflavík í Hegranesi í Skagafirði og Sigurbjörg er systir Þóreyjar konu Jóa. Þeir bræður eru einnig bræður Kristjáns Jóhannssonar og þar með synir Jóa heitins Konn söngvara á Akureyri.

Í gömlu DV fundust þær ættarlýsingar að móðir Jóa, „,,, var Svava, systir Jónasar, föður Kára, fréttastjóra Ríkisútvarpsins, og Mínervu, ömmu Guðríðar Haraldsdóttur dagskrárgerðarmanns. Svava var dóttir Jósteins, b. í Naustavík í Hegranesi, Jónssonar b. og smáskammtalæknis í Hróarsdal í Hegranesi, Jónssonar.“ Nú hringir bjöllum hjá skörpustu hnífunum í ættfræðiskúffum landsmanna en þetta þýðir að móðir Jóa Konn, og þar með langamma Hákons, var skag-firsk.

Hákon Þór, sem er smiður að mennt og starfar sem slíkur, er kvæntur Birnu Jóhönnu Sævarsdóttur og eiga þau tvö börn; Emmu Karen og Svavar Þór. Hákon Þór er fæddur árið 1978. Vinsælasta mynd ársins var Grease þar sem Travolta og Olivia Newton John fóru á kostum, Superman hóf sig til flugs, trukkamyndin Convoy sló í gegn en Hjartarbaninn (The Deer Hunter) tók Óskarinn enda alveg klikkuð mynd með Robert De Niro, Meryl Streep, Christopher Walken, John Cazale og John Savage í aðalhlutverkum. En yfir til Hákons...

Hvað er í deiglunni? Vinna og æfa fyrir næstu mót.

Hvernig nemandi varstu? Ég var örugglega þreytandi í grunnskóla og meira sofandi í framhaldsskóla.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Að upp-götva að það er ekki hægt að affermast.sem var mjög svekkj-andi – annars eru yfir 30 ár síðan.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Um tveir metrar en það tókst ekki.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Að sjálfsögðu allt sem heitir vopn og svo veiðistöngin.

Hvert er uppáhalds leikfangið þitt í dag? Ennþá byssurnar.

Besti ilmurinn? Lykt af brunnu púðri.

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Í Sjallanum á Akureyri árið 2000.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Örugglega prófdómarann – ef átt er við tónlist þá er það sama og í dag; Metallica, Nirvana o.fl.

Hvernig slakarðu á? Úti í náttúrunni við veiðar og í pottinum.

Hvaða seríu varstu síðast að hámhorfa? House of the Dragon.

Hvað bíómynd var í mestu uppáhaldi þegar þú varst unglingur? Platoon.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Lionel Messi er flottur.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Vera fyrir.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Rjúpa, hreindýr, gæs.

Hættulegasta helgarnammið? Hef aldrei hitt hættulegt nammi.

Hvernig er eggið best? Spælt.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Á erfitt með að ljúga. Hreinskilni er varasöm.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Ég nenni ekki að spá í svoleiðis.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Betra að spila sig vitlausan og geta komið á óvart en að spila sig sem gáfaðan og valda alltaf vonbrigðum.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Þegar Móses klauf vatnið þarna um árið.

Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Usain Bolt og myndi hlaupa í vitlausa átt á Ólympíuleikum.

Hver er uppáhalds bókin þín? Harmsaga ævi minnar: Hvers vegna ég varð auðnuleysingi eftir Jóhannes Birkeland er góð.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Ekkert gagn í að vera vitlaus ef það sést ekki.

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Agli Skallagrímssyni, Skarphéðni Njálssyni og Flosa Þórðarsyni.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Ég hef skotið mér til gamans.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... – er ekki fínt að skreppa bara á Hveravelli?

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Skoða Ísland betur, leika mér meira og njóta þess að vera til.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir