Prjónagleðin hefur vaxið með hverju árinu
Næstkomandi helgi dagana 7.-9. júní verður Prjónagleðin haldin í áttunda sinn í Húnabyggð. Í nýjasta tbl. Feykis birtum við viðtal við Ernu Jónmundsdóttur sem uppalin er í Bolungarvík en hefur búið á Blönduósi í 19 ár með eiginmanni sínum, Róberti Daníel Jónssyni, og þremurbörnum. „Handavinna var sennilega það fag í grunnskóla sem mér fannst leiðinlegast og náði t.d. aldrei tökum á prjónaskap. Tókst með herkjum að prjóna einn nálapúða og svo orm sem var 20 cm langur, byrjaði í 20 lykkjum en endaði í 37! Var sem sagt í laginu eins og kaffipoki áður en hann var saumaður saman.
Það var ekki fyrr en ég flutti norður sem áhuginn kviknaði á að prjóna og nú þarf ég helst alltaf að vera með einhver verkefni í takinu, “ segir Erna.
„Öðru hvoru megin við áramótin 2015/2016 bað Arnar Þór Sævarsson, sem þá var bæjarstjóri á Blönduósi, mig um að taka sæti sem varamaður í stjórn Textilsetursins. Beiðninni fylgdi að það væri lítið sem ekkert um forföll og ég yrði þarna nánast bara að nafninu til. Bað mig þó um að mæta á næsta fund stjórnar. Á þeim fundi lagði Jóhanna Erla Pálmadóttir þáverandi framkvæmdarstjóri Textilsetursins fram þessa hugmynd um að koma á fót árlegri prjónahátíð í bænum að fyrirmynd Strykkefestival í Fanø í Danmörku. Stutta útgáfan er sú að stjórn og varamenn voru skipaðir í undirbúningsnefnd og vikulegir fundir fram í júní,“ segir Erna.
„Það var algjört ævintýri að fá að taka þátt í að byggja þessa hátíð upp undir dyggri stjórn Jóhönnu sem bar hitann og þungann af öllu verkefninu. Fyrsta árið voru Norðurlandabúar í meirihluta gesta og heimamenn sáust varla. Það hefur þó heldur betur breyst og nú hefur Íslendingum fjölgað mjög og hátíðin stækkað og vaxið með hverju árinu.“
„Það eru algjör forréttindi að fá alla þessa flottu kennara til okkar, bæði innlenda og erlenda. Á síðasta ári kom t.d. prjónahönnuðurinn Lene Holme, sem er hálfgerð „rokkstjarna” í prjónaheiminum. Námskeiðin og fyrirlestrarnir hafa verið mjög fjölbreytt og skemmtileg. Fyrstu árin var eingöngu stílað inn á námskeið í prjónaskap en síðar bættust við önnur námskeið, svo sem í hekli og fjöldi námskeiða í TextilLabinu á Blönduósi. Sama á við um söluaðila sem mæta með allt milli himins og jarðar sem tengist prjónaskap og handavinnu.“
Svona stór viðburður hefur líka gríðarlega góð áhrif á samfélagið, bæði gott umtal og eins kaup gesta á vörum og þjónustu heimafólks.
Nafnið Prjónagleði á svo sannarlega við
Þegar Erna er spurð um uppáhalds viðburð tengdan prjónagleðinni á hún rosalega erfitt að gera upp á milli viðburða. Erna reynir alltaf að fara á 1-2 námskeið og þau hafa öll farið fram úr væntingum. Að labba um á Garntorgi, skoða og snerta garn, það er mjög ljúft. „Tala nú ekki um að sjá allt þetta fallega handverk sem fólk klæðist, það eitt og sér er mjög skemmtilegt. Svo er bara ótrúlega notalegt að sitja og spjalla í kaffisölunni.“
„Ef ég á að velja einn uppáhaldsviðburð þá var það prjónagjörningurinn Own your own time VI á Prjónagleðinni 2017 en þá stóðu 82 prjónarar í hring og prjónuðu saman í eina klukkustund. Veðrið hafði verið hálf leiðinlegt þessa helgi en rétt áður en viðburðurinn hófst stytti upp og sólin fór að skína, “ segir Erna.
Hvað stendur upp úr á svona hátíð? „Gleðin. Nafn hátíðarinnar Prjónagleði á svo sannarlega við. Þarna koma saman hundruðir manna með sama áhugamál og markmið allra er að njóta þess saman.
Þó að það sé alltaf gaman að sjá ný andlit þykir mér líka mjög vænt um að sjá andlit kennara, söluaðila og gesta sem hafa fylgt okkur frá upphafi og mætt ár hvert, “ segir Erna að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.