Prentun á Feyki og Sjónhorni færist suður yfir heiðar

Guðni prentari við röðunarvélina og með glóðvolgan Feyki, síðastu stórprentunina úr prentvél Nýprents. MYND: ÓAB
Guðni prentari við röðunarvélina og með glóðvolgan Feyki, síðastu stórprentunina úr prentvél Nýprents. MYND: ÓAB

Nú eftir áramót verða breytingar á prentun Feykis og Sjónhornsins. Nýprent mun eftir sem áður gefa blöðin út en prentun færist úr heimabyggð. Eftir því sem Feykir best veit er því ekki lengur eiginleg prentsmiðja á Norðurlandi.

Þannig er mál með vexti að prentarinn sem prentað hefur blöðin og svo fjölmargt annað í gegnum tíðina, Guðni Friðriksson, hættir um áramótin en hann mun vera kominn á aldur fyrir þónokkru þó hann líti út fyrir að vera ekki degi eldri en fertugur. Hann hefur unnið við prentverk í ríflega 40 ár.

Prentarar eru ekki á hverju strái og þá hefur rekstur minni prentsmiðja verið erfiður síðustu árin. Nýprent býr þó að stafrænni vél þar sem margvísleg minni verkefni hafa verið unnin síðustu árin. Áfram mun Nýprent þjónusta sína viðskiptavini, setja upp, prenta minni verkefni stafrænt hér heima en senda stærri verkefni út fyrir skagfirsku landsteinana.

Feykir og Sjónhorn verða því eftir áramót prentuð hjá Prentun í Hafnarfirði og fara í dreifingu á miðvikudögum eftir sem áður.

Í morgun setti því prentarinn okkar Feyki saman í síðasta sinn, jólakveðjublaðið svokallaða, sem fer í dreifingu til áskrifenda eftir hádegi í dag. Vinir Guðna á Nýprenti þakka honum fyrir samstarfið og eiga nokkuð örugglega eftir að sakna spaklegra umræðna um myndir, músik og málefni dagsins í komandi kaffitímum – takk meistari!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir