Ótrúlega gaman að keppa fyrir hönd FNV

Emelíana Lillý syngur – hér reyndar í hlutverki Ronju ræningjadóttur. MYND: GUNNHILDUR GÍSLA
Emelíana Lillý syngur – hér reyndar í hlutverki Ronju ræningjadóttur. MYND: GUNNHILDUR GÍSLA

Söngkeppni framhaldsskólanna fór fram síðastliðið sunnudagskvöld og venju samkvæmt átti Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra frambærilegan fulltrúa. Að þessu sinni var það Emelíana Lillý Guðbrandsdóttir, 16 ára hæfileikabúnt, sem fékk það verkefni að fara fyrst á svið í beinni útsendingu á RÚV og það var próf sem hún stóðst með glans. Hún réðist heldur ekkert á garðinn þar sem hann var lægstur, skellti sér í Whitney Houston ballöðuna I Have Nothing og rúllaði dæminu upp. Feykir hafði samband við söngkonuna efnilegu.

Emelíana er fædd á Sauðárkróki, dóttir Sigurlaugar Vordísar og Guðbrands Guðbrandssonar, og má segja að hún sé nánast uppalin við leik og söng frá blautu barnsbeini. Þrátt fyrir ungan aldur er hún nánast orðin einn af reynsluboltunum hjá Leikfélagi Sauðárkróks og meðal annars leikið Línu Langsokk og Ronju ræningjadóttur.

Hvernig var að taka þátt í keppninni á sunnudaginn? „Mér fannst alveg ótrúlega gaman að keppa fyrir hönd FNV í Söngkeppni framhaldsskólanna, mjög skemmtileg reynsla og skemmtilegt ferli. Það var mikil pressa að fara fyrst á svið en samt svo mikill heiður að byrja þessa keppni, plús það að vera bara búinn með þetta og geta hlustað á hin atriðin án þess að vera að stressa sig yfir sínu eigin atriði var mjög gott.“

Varstu ánægð með frammistöðuna? „Ég var bara mjög ánægð með frammistöðuna og langar bara að gera þetta aftur ef eitthvað er.“

Hvers vegna þetta lag og hvernig undirbjóstu þig fyrir keppnina? „Þetta lag var valið einfaldlega út af því að ég þurfti að velja einhver þrjú lög til að syngja á söngnámskeiði hjá Aldísi Fjólu sumarið 2021, fór inná Youtube, leitaði undir Karaoke, þetta lag kom upp, þannig að ég ákvað að taka það. Aldís hjálpaði mér að negla þetta lag á námskeiðinu og eftir það var þetta svona my go to lag. Tók það í áheyrnarprufu fyrir fjölbrautaskóla-leikritið sem átti að vera í haust og síðan í Söngkeppni NFNV. Ég undirbjó mig einmitt með hjálp Aldísar Fjólu söngkennara, hitti hana bara í vídeó-calli vikuna sem keppnin var og hún hjálpaði mér alveg sjúllað mikið. Hún á nú mikið í þessu því ég hefði ekki verið með þetta sjálfstraust uppi á sviði ef ekki væri fyrir hana og fyrir hana móður mína, Sigurlaugu Vordísi.“

Ástarþakkir fyrir allan stuðninginn

Hvað fannst þér um úrslitin í keppninni og áttir þú einhvern uppáhalds flytjanda? „Ég persónulega hefði verið með aðrar niðurstöður, svooo mikið af flottum atriðum sem komust ekki í topp þrjá. Síðan finnst mér ekki alveg sanngjarnt að símakosningin gildi jafn mikið og dómararnir en það er bara mín skoðun. En mitt uppáhalds atriði og flytjandi var örugglega Þröstur sem söng I'm Still Standing fyrir Menntaskólann á Akureyri.“

Heldurðu að þú eigir eftir að reyna að taka þátt aftur? „Já veistu, kannski maður geri það. Ég lærði allavegana alveg fullt af þessari reynslu, mikill þroski sem fylgdi með þessu og sjálfstraust. Þetta var líka bara svo gaman, maður kynnist mörgu hæfileikaríku fólki og eignast margra vini. Svo ég mæli eindregið með því að kýla bara á að taka þátt og elta draumana,“ segir Emelían Lillý og bætir við: „Ástarþakkir fyrir allan stuðninginn, fyrir að kjósa mig, fyrir öll fallegu skilaboðin, hrósin og kveðjurnar. Er mér svooo mikils virði. Áfram FNV!“

Þess má geta að Emelíana Lillý náði ekki einu af þremur efstu sætunum en keppnin var óvenjujöfn og margir þrælgóðir söngvarar stigu á svið. Sigurvegarinn reyndist vera Emilía Hugrún sem söng I'd Rather Go Blind fyrir hönd Fjölbrautaskóla Suðurlands. Menntaskólinn í tónlist varð í öðru sæti og Fjölbrautaskóli Suðurnesja í þriðja. Keppnin fór fram á Húsavík og tókst með miklum ágætum og heimamönnum til sóma.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir