Opnunarhóf og málþing á Skagaströnd á laugardaginn
Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra býður til opnunarhófs Gagnagrunns sáttanefndabóka og málþings um störf sáttanefnda á Íslandi í húsakynnum sínum á Skagaströnd laugardaginn 29. júní. Setrið hefur frá árinu 2019, í samstarfi við Þjóðskjalasafn Íslands og Héraðsskjalasafn Skagfirðinga, unnið að gerð opins veflægs gagnagrunns yfir allar varðveittar sáttabækur frá stofnun sáttanefnda hér á landi árið 1798 til ársins 1936.
Gagnagrunnurinn er aðgengilegur öllum almenningi á vef Þjóðskjalasafns Íslands, heimildir.is, og verður opnaður með formlegum hætti við þetta tilefni. Einnig verða haldin erindi um sögu og störf sáttanefnda á Íslandi á 19. og 20. öld.
Þingið fer fram á Einbúastíg 2 á Skagaströnd næstkomandi laugardag frá klukkan 14-17. Léttar veitingar verða í boði og allir velkomnir. Verkefnið hefur notið stuðnings Innviðasjóðs, Byggðastofnunar og Nýsköpunarsjóðs námsmanna.
Og hvað eru nú sáttabækur?
Á heimasíðu Háskóla Íslands segir að sáttabækur séu afar gagnlegar heimildir um margar hliðar íslensks samfélags og menningar. Þar er að finna margvíslegar upplýsingar um líf og hagi Íslendinga.
„Misklíðarefnin sem leidd voru til sætta voru fjölbreytileg en fela almennt í sér vitnisburði um samskipti fólks sín á milli, samlíf hjóna, verslun og skuldir og samskipti vinnuveitenda og verkafólks, svo dæmi séu nefnd. Þær veita mikilvæga innsýn í réttarvitund, siðferðishugmyndir og gildismat almennings, félagsgerð og menningarmun.
Þá er þar að finna margháttaðar upplýsingar um eignarhald á landi, um örnefni og efnahagslíf. Þar birtast leiðir nærsamfélagsins til þess að leysa úr ágreiningsmálum og um leið halda friðinn án þess að leita á náðir dómskerfisins.“
Gagnagrunnurinn, sem fagnað verður á Skagaströnd á laugardaginn, mun auðvelda til muna aðgengi og notkun þessara heimilda.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.