Nýi kaupfélagsstjórinn hjá KVH á Hvammstanga
Í byrjun janúar tók Þórunn Ýr Elíasdóttir við starfi kaupfélagsstjóra Kaupfélags Vestur-Húnvetninga en forveri hennar var Björn Líndal Traustason. Þórunn Ýr kemur frá Reykjavík, var ættleidd frá Kóreu, og ólst upp í Breiðholtinu. Eiginmaður hennar heitir Guðni Már Egilsson og eiga þau sex börn, þrjú tengdabörn og átta barnabörn. Þegar Þórunn Ýr kláraði framhaldsskóla lagði hún stund á nám við Háskólann í Reykjavík þar sem hún útskrifaðist með diplómu í fjármálum og rekstri.
Foreldrar hennar, Elías Kristjánsson og Lísbet Bergsveinsdóttir, áttu heildverslunina Kemis ehf. þar sem Þórunn Ýr fékk mikla reynslu í rekstri fyrirtækis því þar starfaði hún í yfir þrjátíu ár sem bæði rekstrar- og síðar fjármálastjóri. Þá átti hún og rak blómaverslun í Breiðholtinu og var svo skrifstofu- og fjármálastjóri hjá Samhjálp sem á og rekur bæði meðferðarstofnun og áfangaheimili fyrir fólk með áfengis- og fíknivanda. Þegar hún flutti á Garðaveginn á Hvammstanga hóf hún störf hjá Húnaþingi vestra þar sem hún starfaði við bókhaldsstörf áður en hún tók við sem kaupfélagsstjóri KVH nú í byrjun árs 2024.
Í tilkynningu sem kom frá KVH eftir að Þórunn var ráðin sagði hún, “Kaupfélagið stendur frammi fyrir ýmsum breytingum eins og flestir hafa tekið eftir og eins hafa hraði og breytingar í viðskiptalífinu og samfélaginu öllu búið til nýjar áskoranir fyrir tilvist kaupfélagsins sem á sér farsæla sögu frá upphafi síðustu aldar. Ég tek við starfinu með eftirvæntingu og hlakka til að bætast í starfsmannahóp KVH og takast á við allar þær áskoranir sem starfinu fylgja. Þakklæti fyrir sýnt traust á verkefninu er mér líka ofarlega í huga á þessum tímamótum”
Feykir náði tali af Þórunni og lagði fyrir hana nokkrar spuringar.
Hvernig kom það til að þú tókst við sem kaupfélagsstjóri KVH? Ég heyrði að fyrrum kaupfélagsstjóri væri búinn að segja starfi sínu lausu, sendi póst á stjórnina bæði til að fá upplýsingar um starfið og láta vita að ég væri opin fyrir samtali við þau ef þau hefðu áhuga. Þau boðuðu mig svo seinna á fund og buðu mér svo starfið.
Hvað finnst þér skemmtilegast við starfið? Eiginlega bara allt, það er í mörg horn að líta. Fjármál, innkaup, mannaforráðin, húsaviðhald, samstarfssamningar o.fl. o.fl. sem hentar mér mjög vel. Mér finnst gott að vera með marga bolta á lofti og geta aðeins svissað á milli verkefna yfir daginn.
Hvað starfa margir hjá KVH í dag? Fastir starfsmenn eru nítján en allt í allt erum við um 40 með öllum, þar meðtalin starfsmenn í tímavinnu og ræstingarfólk.
Ertu búin að gera margar breytingar innan KVH síðan þú tókst við? Kannski ekki búin að breyta miklu en það er búið að skerpa aðeins á nokkrum hlutum, loka fyrir frystiklefa, sem reyndar var í vinnslu þegar ég tók við, endurvakið heimasíðuna, hagrætt í ýmsum föstum útgjaldaliðum og svona eitt og annað sem gerist bakvið tjöldin.
Helstu áhugamál? Ég er mikill lestrarhestur en svona á seinni árum þá tek ég lestrarskorpur. Finnst gaman að ferðast þó það gerist mis mikið af því.
Ekki sleppur Þórunn Ýr við fermingarspurningar í þessu fermingarblaði Feykis og fer vel á því að forvitnast um hvað hún hafi fengið í fermingargjöf. ,,Ég fékk mikið af skartgripum, og hljómflutningsgræjur."
Hvað var eftirminnilegast við fermingardaginn þinn? Það er svo sem ekkert eitthvað eitt sérstakt en ég man vel eftir þessum degi og hann var bjartur og fagur og mér þykir alltaf vænt um þennan dag.
Áttu/notar þú eitthvað af því sem þú fékkst í fermingargjöf í dag? Ég á eitthvað af skartgripunum ennþá en nota þá ekki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.