Norðanpaunk haldið í 10. sinn um verslunarmannahelgina
Um verslunarmannahelgina verður Norðanpaunk, ættarmót paunkara, haldið í 10. sinn á Laugarbakka í Miðfirði. Á vefnum huni.is segir að áhersla hátíðarinnar frá upphafi hefur ávallt verið á óvanalega íslenska jaðartónlist, en nokkrar erlendar sveitir hafa einnig mætt á svæðið og spilað fyrir gesti. Engin breyting verður á því í ár. Allt skipulag Norðanpaunks er í höndum sjálfboðaliða sem samanstanda af hljómsveitameðlimum og gestum hátíðarinnar.
Á meðal hljómsveita á hátíðinni í ár eru Barnaveiki, Aska, Brött brekka, Dauðyflin, Drýsildjöfull, Fortan, Forsmán, Geðbrigði, Gubba hori, Holdris, Retrön, Sleeping Giant, Slor, Sucks to be you, Svartþoka, Tæl, Undru, Xarg og Ægir.
Norðanpaunk fékk í byrjun árs úthlutað úr nýjum Tónlistarsjóði. Sjóðurinn byggir á tónlistarstefnu til ársins 2030 og heildstæðri löggjöf um tónlist sem samþykkt var á Alþingi í fyrra. Hlutverk hans er m.a. að efla íslenska tónlist, hljóðritagerð og þróunarstarf í íslenskum tónlistariðnaði með fjárhagslegum stuðningi. Sjóðurinn skal einnig stuðla að kynningu á íslensku tónlistarfólki og tónsköpun þeirra hér á landi sem erlendis.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.