Níu styrkir úr Íþróttasjóði til verkefna á Norðurlandi vestra
Í síðustu viku úthlutaði Íþróttanefnd tæpum 28 milljónum úr Íþróttasjóði til 74 verkefna fyrir árið 2024 en alls bárust nefndinni umsóknir um styrki í 179 verkefni. Alls hlutu níu verkefni á Norðurlandi vestra styrki en hæsti styrkurinn á svæðinu kom í hlut sunddeildar Tindastóls í verkefnið Orkuboltar og vellíðan sem er ætlað börnum með sérþarfir.
Alls voru 114 umsóknir um styrki til að bæta aðstöðu til íþróttaiðkana að upphæð rúmlega 157 m. kr. Styrkumsóknir um fræðslu- og útbreiðsluverkefni voru 54 að upphæð um 62,8 m. kr. og umsóknir vegna íþróttarannsókna voru 11 að upphæð rúmlega 30,5 m. kr.
Húnahornið fór yfir verkefnin sem fengu styrki í Húnavatnssýslum og þar segir að Ungmennafélagið Kormákur hafi fengið 250 þúsund krónur vegna verkefnis sem nefnist Körfuboltar. „Skotfélagið Markviss í Húnabyggð fær 250 þúsund krónur vegna kaupa á æfingatækjum. Hestamannafélagið Þytur fær 300 þúsund vegna félagshesthúss. Ungmennafélagið Fram á Skagaströnd fær 300 þúsund vegna yfirhalningar á íþróttavelli og endurnýjun á búnaði og Ungmennasamband Austur-Húnvetninga fær 300 þúsund vegna forvarnarverkefnis fyrir ungt fólk í héraðinu,“ segir í frétt Húna.is.
Þá kemur fram að Rathlaupafélagið fær 300 þúsund króna styrk fyrir verkefnið Rathlaup á Norðurlandi vestra.
Sunddeild Tindastóls fékk styrk í Orkuboltar og vellíðan
Í Skagafirði fékk Ungmennasamband Skagafjarðar 200 þúsund króna styrk vegna Fræðslu- og námskeiðadaga UMSS, unglingaráð körfuknattleikseildar Tindastóls fékk 300 þúsund króna styrk vegna Körfuboltaskóla Tindastóls og loks fékk sunddeild Tindastóls 450 þúsund króna styrk vegna Orkuboltar og vellíðan en það var hæsti styrkurinn sem kom á Norðurland vestra.
Það var því ekki úr vegi að hafa samband við Þóru Lisebet Gestsdóttur-Bethke, formann sunddeildar Tindastóls, og spyrja um hvað verkefnið Orkuboltar og vellíðan feli í sér. Þóra segir að þegar hún hafi tekið við formennskunni hafi hana langað að prófa eitthvað nýtt fyrir iðkendur sunddeildarinnar. „Megin tilgangur verkefnisins er að stuðla að inngildingu barna með sérþarfir í starfinu okkar. Þetta er mest hugsað fyrir börn með adhd, á einhverfurófinu eða skyldar raskanir. Þeir iðkendur sem þurfa á því að halda fá aukinn stuðning á sundæfingum,“ segir hún.
„Höfum við því t.d. fjölgað aðstoðarfólki á æfingum. Einnig hittist hópurinn í Vallarhúsinu [við íþróttavöllinn á Sauðárkróki] einu sinni í viku í viðbót við sundæfingarnar með hinum iðkendunum,“ segir Þóra og bætir við að í hittingunum sé farið í jóga, stundum ýmis konar hópefli, t.d. með sjálfseflingu og ýmsum bjargráðum sem krakkarnir geta nýtt sér við krefjandi aðstæður.
Hún segir að hópurinn samanstandi af 8-9 börnum í augnablikinu. „Þau eru ýmist á hinum löngu biðlistum eftir greiningu og viðeigandi þjónustu, í greiningarferli eða komin með greiningu. Við erum gríðalega þakklát fyrir þessa góðu styrki sem við höfum fengið, ásamt fénu sem sjálfboðaliðar söfnuðu fyrir deildina á Unglingalandsmóti UMFÍ sl.sumar. Við erum lítil deild og því munar þetta miklu fyrir okkur og gerir deildinni kleift að efla starfið enn frekar. Við viljum að allir sem hafa áhuga á að æfa hjá okkur geti gert það á sínum forsendum,“ segir Þóra Lisebet að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.