Mögnuð tónlistarveisla í Bjarmanesi á laugardaginn

Tónlistarfólkið allt saman á einni mynd. AÐSENT
Tónlistarfólkið allt saman á einni mynd. AÐSENT

Menningarmiðja Norðurlands og Minningarsjóðurinn um hjónin frá Vindhæli og Garði standa fyrir tónleikum í menningar- og samveruhúsinu Bjarmanesi á Skagaströnd nk. laugardag 20. júlí kl. 20:30. Tónleikarnir eru mikill fengur fyrir áhugafólk um vel flutta þjóðlagatónlist en í Bjarmanesi troða upp íslenska þjóðlagasveitin BREK og bandaríski blágrasbræðingurinn Hank, Pattie & the Current.

Böndin túra saman þessa vikuna undir titlinum Raleigh to Reykjavík, befja leik á Hvolsvelli í kvöld, síðan eru það Egilsstaðir 17. júlí, svo er troðið upp á Verkstæðinu á Akureyri í félagsi við Svavar Knút, Segull 67 á Sigló á föstudagskvöldið, Bjarmanes á laugardag og hópurinn kemur í mark í Reykjavík á sunnudag og spilar þá í Iðnó.

Hank, Pattie & the Current

Bluegrass hugsjónafólkið Hank Smith (banjó) og Pattie Hopkins Kinlaw (fiðla) treður upp með nýstárlega nálgun á hefðbundna bluegrass tónlist en segja má að hér sé á ferðinni sálarríkt brugg, bragðbætt með klassískum, Motown, djass- og poppáhrifum. Hank & Pattie eru magnaðir blágras plokkarar, sem einnig fást við klassíska tónlist, en þau hafa mótað sinn einstaka hljóm með því að hræra saman þeirri tónlist sem þau eru undir áhrifum frá og búa til einstakan hljóm. Tónlist þeirra, samsöngur, ástríðufullur flutningur og nýstárlegar útsetningar heilla allar kynslóðir tónlistarunnenda.

Í hljómsveitinni eru auk Hanks og Pattie bassaleikarinn Stevie Martinez og gítarleikarinn Billie Feather.

Brek

Hljómsveitin Brek leikur aðallega frumsamda, alþýðuskotna, tónlist með áhrifum úr ýmsum áttum. Áhersla er á að tvinna saman ýmis áhrif frá mismunandi stílum þjóðlaga- og dægurtónlistar. Einnig reynir sveitin að skapa áhugaverða en notalega stemningu í hljóðfæraleik sínum, en jafnframt krefjandi á köflum. Sveitin leggur áherslu á að nota fjölskrúðugt orðbragð og nýta þannig hinn mikla og fallega orðaforða sem íslenskan hefur upp á að bjóða.

Áhrif tónlistarinnar koma úr ýmsum áttum en Brek leitast við að tvinna þeim saman í sinn hljóðheim og leitast þannig við að brjóta niður múra á milli tónlistarstefna ásamt því að tengja íslenskan þjóðlagaarf við aðrar tegundir þjóðlagatónlistar.

Hljómsveitin var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna í flokki þjóðlagatónlistar tvö ár í röð og hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir plötu ársins í þjóðlaga- og heimstónlist árið 2022 fyrir sína fyrstu plötu, sem er samnefnd sveitinni.

Brek skipa Jóhann Ingi Benediktsson sem spilar á gítar og syngur, Sigmar Þór Matthíasson sem spilar á kontrabassa og síðan hjónin Guðmundur Atli Pétursson sem leikur á mandólín og Harpa Þorvaldsdóttir sem syngur og spilar á píanó en Harpa er ættuð frá Hvammstanga.

- - - - -

Það eru því engir aukvisar sem munu munstra hljóðfærin sín í Bjarmanesi á Skagaströnd á laugardaginn og óhætt að hvetja alla sanna tónlistarunnendur til að mæta.

Slóðir á netsíður, myndbönd og tónlist >
https://www.hankandpattie.com
https://www.brek.is/um-okkur

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir