LightUp! 2024 er einstakur viðburður á Norðurlandi

Frá LightUp! 2022 á Skagastrond. AÐSEND MYND
Frá LightUp! 2022 á Skagastrond. AÐSEND MYND

„LightUp! 2024 er ljósalistahátíð sem verður haldin á Skagaströnd 27.-28. janúar nk. Við leggjum af stað í hrífandi ferð til að lýsa upp Skagaströnd,“ svarar Eva Guðbjartsdóttir, stjórnarformaður Nes og viðburðastjórnandi, þegar Feykir spyr hana út í hátíðina. „LightUp! verkefnið okkar miðar að því að umbreyta samfélaginu með því að sýna einstök listaverk sem nýta kraft ljóssins. Hæfileikaríkir listamenn eru valdnir til að taka þátt í þessum einstaka viðburði og nota þeir ýmsar aðferðir til að búa til yfirgripsmiklar ljósainn-setningar og vörpun sem mun sannarlega dáleiða,“ segir Eva.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem LightUp! er haldið á Skagaströnd. Hver er sagan á bak við LightUp!? „Þetta er í annað skiptið sem Nes Listamiðstöð kallar eftir listamönn-um til að taka þátt í þessari hátíð en hún var haldin í fyrsta skipti árið 2022 og tókst afar vel. Er þetta partur af því að vaxa og dafna sem listamiðstöð og vekja athygli á hinu frábæra starfi sem er unnið þar hvern einasta mánuð ásamt því að koma íbúum og öðrum gestum saman til að njóta einstakra kvölda. Það að fá listamenn til að vinna með sama þemað er mjög kröftugt og sést það í útkomunni. Ljósalista-hátíðir eru vel þekktar á Íslandi og má þá nefna Vetrarhátíðina í Reykjavík og List í ljósi á Seyðisfirði sem hafa báðar fengið mikið lof.“

Hverjir koma að ljósasýningunum og liggur mikil vinna að baki sýningunni? „Í ár erum við með tíu erlenda listamenn alls staðar að úr heiminum og einn heimamann ásamt starfsfólki og stjórn Nes að setja upp hátíðina. Það er mikil vinna, skipulagning og fjármunir sem fara í hátíð eins og LightUp! en allt er það þess virði þegar uppi er staðið. Það er að segja ef veðrið heldur sig á mottunni. En veðrið er okkar helsti óvinur í allri uppsetningu og sýningu á verk-unum. Við vorum einstaklega heppin árið 2022 en þá þurfti aðeins að færa hátíðina um einn dag vegna veðurs. Við liggjum því á bæn fyrir góðu veðri.“

Eru Skagstrendingar áhugasamir um Light-Up!? „Skagstrendingar og aðrir í nærsamfélög-um okkar eru mjög spenntir fyrir hátíðinni og vonum við að sem flestir taki virkan þátt, kíki á rúntinn eða fari á menningarrölt í gegnum bæinn. Haldnar verða vinnustofur með börnunum í skólanum og vinna þau sameiginlega að ljósalistaverkum sem verður mjög gaman að sjá hvernig til tekst en mikið og gott samstarf hefur verið á milli grunnskólans og listamiðstöðvarinnar.“

Hvernig er best að meðtaka LightUp!? „Besta leiðin til að meðtaka LightUp! er að mæta, taka þátt og njóta á sínum eigin forsendum. Þetta er einstakur viðburður á Norðurlandi og það verður enginn svekktur á að koma,“ segir Eva spennt.

LightUp! hefst formlega klukkan 18, föstudaginn 27.janúar en stuttu áður verður Ungmennafélagið Fram með viðburð þar sem börn og fullorðnir koma saman og ganga með Ljómastafi (e.Glow stick) niður í Nes og hefja hátíðina. LightUp! stendur yfir bæði föstudag og laugardag frá kl: 18:00-22:00 og eru allir hjartanlega velkomnir að koma og njóta ljóssins í myrkrinu.

Fylgist betur með nánari dagskrá og staðsetningu listaverkanna á www.neslist.is og á Facebook síðunni >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir