Landsvirkjun vill greiða ríkinu 20 milljarða króna arð
Á heimasíðu Viðskiptablaðsins segir að Landsvirkjun hafi hagnast um 209,5 milljónir dala, eða sem nemur nærri 29 milljörðum króna, á árinu 2023, sem er um 30% aukning frá fyrra ári. Stjórn fyrirtækisins mun leggja til að greiddur verði arður til ríkisins upp á 20 milljarða króna líkt og í fyrra en Landsvirkjun birti ársuppgjörið sitt þann 29. febrúar.
„Árið 2023 var besta rekstrarár í tæplega 60 ára sögu Landsvirkjunar,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
„Þessi árangur náðist þrátt fyrir að tekjur af sölu til stórnotenda drægjust saman vegna verðlækkana á mörkuðum, en heildarrekstrartekjur jukust verulega, einkum vegna áhættuvarna. Þannig hefur virk áhættustýring í rekstri Landsvirkjunar sannað gildi sitt, en hún dregur úr tekjusveiflum og stuðlar að stöðugri rekstrarafkomu fyrirtækisins. Rekstrar- og viðhaldskostnaður hækkaði eingöngu um 4% á milli ára,“ segir Hörður.
Afkoman í ár líklega ekki jafn góð
Hörður segir að rekstrarárin 2022-23 hafi verið einstök í sögu fyrirtækisins, einkum vegna endursamninga síðustu ára, hagstæðra aðstæðna á mörkuðum og raforkusamnings við stórnotanda sem tengdur var verðþróun á Nordpool og reyndist Landsvirkjun mjög hagstæður en er nú runninn út.
„Áfram eru horfur á góðri afkomu Landsvirkjunar á árinu 2024, en ekki eru líkur á því að afkoman verði jafn góð og þessi tvö ár fyrr en að endursamningum við Alcoa lýkur og nýjar aflstöðvar hefja rekstur.“
Rekstrartekjur Landsvirkjunar jukust um 8% milli ára og námu 657 milljónum dala eða um 90 milljarða króna á gengi dagsins. Rekstrargjöld jukust um 1,6% og námu 266 milljónum dala eða um 36,5 milljarða króna.
Rekstrarhagnaður Landsvirkjunar jókst því um 13% og nam 391,5 milljónum dala eða hátt í 54 milljarða króna á gengi dagsins.
Fjárhagsstaðan aldrei betri en blikur á lofti í raforkumálum
Hörður segir að fjárhagsstaða Landsvirkjunar hafi aldrei verið betri. Eignir Landsvirkjunar voru bókfærðar á 3.614 milljónir dala eða um 492 milljarða króna í árslok 2023. Eigið fé fyrirtækisins nam tæplega 322 milljörðum króna.
Eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar hækkaði úr 59,3% í 65,4% milli ára og er hærra en nokkru sinni fyrr.
Nettó skuldir, þ.e. vaxtaberandi skuldir að frádregnu handbæru fé, lækkuðu um 151 milljón dala milli ára og skuldsetning er komin niður í 1,4x rekstrarhagnað fyrir afskriftir. Hörður segir að það sé svipað eða betra en gengur og gerist hjá öðrum orkufyrirtækjum á Norðurlöndunum sem við berum okkur saman við.
„Á meðan rekstur orkufyrirtækis þjóðarinnar gengur betur en nokkru sinni fyrr eru blikur á lofti í raforkumálum Íslendinga. Framkvæmdir við orkuöflun hafa tafist af ýmsum orsökum, og líkur eru á því að raforkuframleiðsla nái ekki að anna eftirspurn vegna orkuskipta og almenns vaxtar samfélagsins fyrr en í fyrsta lagi á árunum 2027-28,“ segir Hörður.
„Vonir standa þó til þess að hægt verði að hefja framkvæmdir við Hvammsvirkjun og Búrfellslund á árinu, þá virkjunarkosti sem eru komnir lengst í þróun hjá fyrirtækinu. Einnig er unnið að lokaundirbúningi fyrir stækkun Þeistareykjavirkjunar og stækkun Sigölduvirkjunar og stefnt á að fá heimild stjórnar Landsvirkjunar til að hefja útboð tengd þeim framkvæmdum síðar á árinu,“ segir Hörður að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.