Knattspyrnuvallahallæri á Norðurlandi vestra og víðar

Svona er ástandið á Ólafsfjarðarvelli. Leikur Kormáks/Hvatar fer því fram á Dalvík rétt eins og leikur Stólastúlkna í Mjólkurbikarnum. MYND AF AÐDÁENDASÍÐU KORMÁKS/HVATAR
Svona er ástandið á Ólafsfjarðarvelli. Leikur Kormáks/Hvatar fer því fram á Dalvík rétt eins og leikur Stólastúlkna í Mjólkurbikarnum. MYND AF AÐDÁENDASÍÐU KORMÁKS/HVATAR

Þrjú meistaraflokkslið í knattspyrnu þreyja þorrann á Norðurlandi vestra þessa sumarbyrjunina; kvennalið Tindastóls sem spilar í Bestu deild kvenna, Kormákur/Hvöt í 2. deild karla og karlalið Tindastóls í 4. deildinni. Öll þurfa liðin leikhæfa leikvelli til að spila á en þeim er því miður ekki til að dreifa þessa dagana á svæðinu og hafa liðin því þurft að ýmist færa leiki lengra inn í sumarið, spila heimaleiki sína í Eyjafirði eða skipta á heimaleikjum við andstæðinga hverju sinni.

Á Norðurlandi vestra er einn gervigrasvöllur og fjórir grasvellir sem vanalega eru orðnir leikhæfir misjafnlega snemma í júni. Þá erum við að tala um gervigrasvöllinn á Króknum sem er talinn ónothæfur fyrir meistaraflokksleiki eftir að hann varð fyrir skemmdum í kjölfar leysinga í apríl. Síðan eru það grasvellirnir á Króknum, Hofsósi, Blönduósi og Hvammstanga og þó menn biðji æðri máttarvöld um sól og regn þá grænka vellirnir ekki fyrr en nokkuð er liðið á sumarið og Íslandsmótin í knattspyrnu komin vel á veg.

Skemmdir á um 1.500 fermetrum

Fjallað var um gervigrasvallarmálið á fundi byggðarráðs Skagafjarðar í gær en í fundargerð segir: „Laugardaginn 20. apríl sl. voru miklar leysingar í Skagafirði og hafði Veðurstofa Íslands m.a. gefið út gula viðvörun vegna rigninga og asahláku á Norðurlandi vestra. Í leysingunum fór gervigrasvöllurinn á Sauðárkróki undir vatn að stórum hluta þrátt fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir sem gerðar voru ofan við völlinn dagana á undan sem fólust m.a. í rásum sem útbúnar voru til að beina leysingavatni frá vellinum. Gervigrasvöllurinn, sem tekinn var í notkun fyrir sex árum, er hannaður til að drena sig sjálfur í leysingum og getur það tekið um einn til tvo sólarhringa fyrir svona mikið vatn að fara af vellinum. Við fyrrgreindar leysingar og í aðgerðum sem framkvæmdar voru til að ná vatni af vellinum er ljóst að skemmdir urðu á vellinum á um 1.500 fermetrum.
Fyrirliggjandi eru drög að tilboði frá Metatron um viðgerð á vellinum. Er áætlaður kostnaður um 11 m.kr., fyrir utan förgunarkostnað, en í kjölfarið fer fram endurnýjun á 550 fermetrum af gervigrasi á vellinum í samræmi við fjárhagsáætlun 2024.“

Bikarleikur kvenna spilaður á Dalvík

Adam Smári, formaður knattspyrnudeildar Tindastóls, horfir til þess að gervigrasvöllurinn á Sauðárkróki verði vonandi kominn í stand um mánaðamótin næstu en það ætti mögulega að skýrast fyrir vikulokin hvort viðgerðir geti hafist svo sú sviðsmynd geti ræst. Hann segir það vera viðgerðaaðila og KSÍ að meta völlinn. Ýmsir hafa furðað sig á því að á meðan meistaraflokkarnir hafa ekki spilað á gervigrasinu hafa yngri flokkarnir gert það. Adam Smári bendir á að töluvert meiri hraði sé í leikjum meistaraflokkanna en yngri flokka og því meiri hætta á meiðslum.

Vonast var til þess að gervigrasvöllurinn yrði klár fyrir leik Tindastóls og Þórs/KA í Mjólkurbikarnum sem átti að spila nú á laugardaginn. Það næst augljóslega ekki og verður hann spilaður á Dalvík kl. 12 á laugardag. Adam Smári tjáði Feyki síðan að leikur karlaliðsins gegn liði Hamars, sem fara átti fram annan í hvítasunnu, hefur verið færður á heimavöll Hamars.

Þá er svipað hallæri á Tröllaskaganum þar sem Knattspyrnufélag Fjallabyggðar spilar heimaleiki ýmist á Siglufirði eða á Ólafsfirði. Hvorugur völlurinn er í lagi og því verður leikur KF gegn Kormáki/Hvöt, sem fram átti að fara á Ólafsfirði, spilaður á Dalvíkurvelli annað kvöld og hefst kl. 19:15.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir