Karlakórarnir Heimir og Fóstbræður saman í Miðgarði
Laugardaginn 13.apríl næstkomandi tekur Karlakórinn Heimir á móti kollegum sínum í Fóstbræðrum í Miðgarði. Slá þeir saman til tónleika sem hefjast kl.17.00.
Fóstbræður eru um þessar mundir að undirbúa eigin vortónleika í Reykjavík, og taka á þessum tónleikum hluta af sinni vordagskrá. „Þeir munu syngja fyrir hlé, svo komum við Heimismenn eftir hlé og að lokum er samsöngur beggja kóra, þar sem teknir verða sígildir karlakórsslagarar. Við Heimismenn erum þeim Fóstbræður þakklátir fyrir komuna norður, þeir líta á þetta sem virðingarvott við okkur og vilja með þessu styðja við okkur og okkar starf eftir það sem á undan er gengið,“ segir Atli Gunnar Arnórsson formaður Karlakórsins Heimis.
Þess má geta að nokkrir Skagfirðingar eru félagar í Fóstbræðrum, svo sem Guðmundur Benediktsson frá Vatnsskarði og Ragnar Már Magnússon, en hann mun syngja einsöng á tónleikunum í lagi eftir Sverri Bergmann bróður sinn – þeir bræður eiga ekki langt að sækja sönghæfileikana – en fyrir þá sem ekki vita þá er Magnús Sverrisson faðir þeirra, sem staðið hefur í fremstu röð í tenórnum í Heimi lengur en elstu menn muna.
Með þessum tónleikum tekur Karlakórinn Heimir forskot á Sæluvikuna, en þessir tónleikar koma í stað hinna hefðbundnu Sæluvikutónleika kórsins þetta vorið. Þessir tónleikar eru merkilegir fyrir þær sakir að Jón Þorsteinn Reynisson mun þá stýra Heimi í fyrsta sinn opinberlega.
„Karlakórinn Heimir mun svo halda tónleika í Glerárkirkju á Akureyri í lok maí, og jafnvel víðar um það leyti, tónleikaferð á höfuðborgarsvæðið bíður hins vegar haustsins,“ segir Atli Gunnar að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.