Jákvæðnin er framar mínum björtustu vonum | Baldur Þórhallsson
Laugardaginn 1. júní stingum við Íslendingar okkur inn í kjörklefa og setjum x við þann frambjóðanda sem við viljum sjá sem forseta þjóðarinnar næstu fjögur árin. Aldrei áður í sögu lýðveldisins hafa jafn margir einstaklingar skreytt kjörseðilinn eða hvorki fleiri né færri en tólf. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir forsetaefnin og gáfu þau sér öll tíma til að svara. Hér að neðan má lesa svörin sem Baldur Þórhallsson gaf Feyki.
Hvers vegna á fólk að kjósa þig? - Ég trúi því að við getum gert landið og þjóðina að einni heild. Ég vil stuðla að því að við einblínum á það sem sameinar okkur. Ég mun standa vörð um mannréttindi og tryggja hagsmuni okkar erlendis. Auk þess vil ég að við stöndum fremst meðal þjóða í málefnum barna- og ungmenna rétt eins og við stöndum fremst meðal þjóða í jafnréttismálum.
Af hverju langar þig að verða forseti Íslands? - Á milli þjóðar og forseta er beint og milliliðalaust samband og forseti verður alltaf, algjörlega án nokkurra undantekninga, að hafa heildarhagsmuni þjóðarinnar efst í huga. Forseta ber að virða þingræðið og honum ber að tryggja að í landinu sé starfhæf ríkisstjórn á grundvelli vilja Alþingis.
Forsetinn hefur dagskrárvald í íslenskri þjóðfélagsumræðu. Þegar forsetinn talar, þá er á hann hlustað. Yrði ég forseti, myndi ég vilja nota það tækifæri til þess að leggja áherslu á málefni sem snúa að mannréttindum allra samborgara okkar og málefni barna og ungmenna.
Það sama má segja um rödd forseta á erlendri grundu. Forseti getur þar lagst á árar með stjórnvöldum og staðið vörð um hagsmuni þjóðarinnar í alþjóðasamfélaginu. Forseti getur opnað margar dyr erlendis — bæði fyrir stjórnvöldum og fólkinu í landinu. Við eigum að nýta forsetaembættið til að opna dyr og leiða fólk saman, hér heima og að heiman.
Hvað hefur komið þér mest á óvart í baráttunni um Bessastaði? - Jákvæðnin og áhuginn hjá öllum sem ég hef rekist á. Við erum á þessum vikum búin að bjóða til funda hringinn í kringum landið og taka á móti mörg þúsund gestum og áhuginn og jákvæðnin er framar mínum björtustu vonum.
Hver hefur verið stærsta áskorunin í þínu lífi? - Að skilja kindurnar og hrossin eftir heima þegar ég hélt til náms á Laugarvatni og flutti á heimavistina.
Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? - Ég sá Felix fyrst á bókasafni Samtakanna '78. Ekki löngu síðar fór ég á staðinn 22 vitandi að Felix yrði þar. Þar hófst mikið ævintýri sem stendur enn yfir.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? - Ég ætlaði að verða bóndi.
Bessastaðir eru ágæt búskaparjörð, til dæmis er þar ágæt fjörubeit fyrir sauðfé meira og minna allan veturinn. Hefur þú í hyggju að stunda búskap á Bessastöðum ef þú verður kosinn forseti? - Ég er nú alinn upp við bústörf og tók þrettán ára gamall við sauðfjárbúi afa míns þegar hann veiktist. Ég er því öllum hnútum kunnugur þegar kemur að sauðfjárrækt. Ég hugsa til baka til bústarfanna með mikilli hlýju og ég viður-kenni það fúslega að hafa oft hugsað til lífsins sem hefði getað orðið í sveitinni. Hvað búskap á Bessastöðum varðar, þá held ég að af því yrði ekki í minni forsetatíð. Að halda sauðfé er skuldbinding og ég myndi aldrei leggja í þá vinnu nema hafa tíma til þess að sinna því verkefni af alvöru.
- - - - -
Allir fengu frambjóðendurnir sömu spurningarnar. Tilviljun og rými réðu því í hvaða röð forsetaefnin fóru á síður pappírsútgáfu Feykis. Birtingartíminn hér á Feykir.is er öfug röð miðað við blaðið en viðtölin munu birtast frá miðvikudegi til föstudags. Feykir þakkar forsetaefnunum fyrir að gefa sér tíma til að svara.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.