Húnvetningar verðlaunaðir á Búnaðarþingi

Landbúnaðarverðlaunin 2022 voru veitt á setningarathöfn Búnaðarþings í morgun og voru Húnvetningar sigursælir. Verðlaunahafar að þessu sinni eru Borghildur Aðils og Ragnar Ingi Bjarnason, sauðfjárbændur á Bollastöðum í Blöndudal, Karólína Elísabetardóttir sauðfjárbóndi í Hvammshlíð í Skagabyggð og lífrænt vottaða mjólkurvinnslan Biobú í Reykjavík.

Á Bændablaðið.is kemur fram að bændurnir á Bollastöðum, Borghildur Aðils og Ragnar Ingi Bjarnason, séu þátttakendur í verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður og hafa í gegnum það verkefni innleitt aðgerðir sem munu minnka kolefnissporið en á sama tíma auka framleiðni og hagræðingu í búrekstrinum. Í aðgerðaráætlun Bollastaða í loftslagsmálum fyrir árin 2020 til 2025 eru metnaðarfullar og raunhæfar aðgerðir sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Útrýming á riðu í gegnum ræktunarstarf

Að frumkvæði Karólínu Elísabetardóttur, sauðfjárbónda í Hvammshlíð í Skagabyggð, var síðastliðið vor hafin leit í erlendum rannsóknum sem gætu sýnt fram á lausnir gegn riðuveiki og í kjölfarið farið af stað með tvö rannsóknarverkefni sem höfðu það meginmarkmið að leita að verndandi arfgerðum gegn riðu í íslensku sauðfé. Karólína komst á snoðir um rannsóknarskýrslur frá Ítalíu sem sýndu fram á að tvær arfgerðir í viðbót, við ARR-arfgerðina sem er alþjóðlega viðurkennd, kynnu að vera verndandi. Önnur þeirra hét T137 og hafa fundist tíu kindur hér á landi sem bera þá arfgerð.

Biobú hefur sérhæft sig til vinnslu á lífrænum mjólkurafurðum, en það var stofnað í júlí 2002 og hóf sölu á lífrænni jógúrt 3. júní 2003.

Fyrirtækið hefur sérhæft sig í vinnslu á lífrænt vottuðum mjólkurafurðum og stefnir á framleiðslu á lífrænt vottuðu nautakjöti. Stofnendur og aðaleigendur fyrirtækisins eru hjónin Dóra Ruf og Kristján Oddsson, en þau stunda lífræna mjólkurframleiðslu að Neðra Hálsi í Kjós.

Sjá nánar á Bbl.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir