Húnavakan nálgast óðfluga
Þær gerast ekki mikið glæsilegri bæjarhátíðirnar en Húnavakan á Blönduósi. Hún verður haldin dagana 17.-21. júlí og það er næsta víst að sólin verður í Húnabyggð – hvernig svo sem viðrar – sem og Stjórnin. Það er farið að kynda eftirvæntingarbálið á netinu og ekki annað að sjá en að dagskráin verði meiriháttar í ár.
Meðal þeirra sem munu skemmta gestum eru Emmsjé Gauti, Stjórnin, Bandmenn, Slagarasveitin, Dagur með Bóasi og Einari, Hljómsveitin Skandall, Júníus Meyvant, Íþróttaálfurinn og Solla stirða, Leikhópurinn Lotta, Tröllið Tufti og þá verður hægt að bregða/bragða sér í Vilko vöfflu rölt, skella sér í Taylors Tívolí og góna á torfæru og BMX brós.
Þá verður ekki ónýtt að henda sér í froðurennibraut, láta reyna á lukkuna í styrktarbingói, gæla við bragðlaukana í grillpartíi og/eða á kótelettukvöldi, fara í búningahlaup, einn hring eða tvo í veltibílnum góða eða fara í gönguferðir, útsýnisflug, loftbolta og þar fram eftir götunum.
Þetta verður allt saman auglýst betur þegar nær dregur og búið er að raða upp dagskránni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.