Húnabyggð rekin með 68,3 milljóna tapi í fyrra
Á fréttaveitunni huni.is segir að Húnabyggð var rekið með 68,3 milljón króna tapi árið 2023. Árið var fyrsta heila árið sem sveitarfélagið er rekið fjárhagslega sem eitt sveitarfélag. Fjárhagsáætlun með viðaukum gerði ráð fyrir um 43 milljón króna hagnaði. Mismunurinn skýrist að stærstum hluta í reiknuðum stærðum sem sveitarfélagið hefur lítil áhrif á, að því er segir í bókun sveitarstjórnar á fundi hennar þann 11. júní þar sem ársreikningur sveitarfélagsins var samþykktur.
Þar eru nefndar tvær helstu ástæður fyrir muninum á endanlegri niðurstöðu og fjárhagsáætlun. Verðbætur voru vanáætlaðar um tæpar 64 milljónir og lífeyrisskuldbindingar, sem að langmestu leyti koma frá Félags- og skólaþjónustu A-Hún., voru 30 milljónir.
Tekjur vaxa um rúm ellefu prósent milli ára
Samkvæmt ársreikningnum námu heildartekjur Húnabyggðar í fyrra 2,5 milljörðum króna og hafa vaxið um 11,4% milli ára. Heildargjöld námu tæpum 2,2 milljörðum og hafa vaxtið um 4,7% milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir var um 310 milljónir króna og rúmlega tvöfaldast á milli ára í krónutölu. Veltufé frá rekstri var um 214 milljónir en áætlunin hljóðaði upp á 200 milljónir. Efnahagur sveitarfélagsins nam um 4,63 milljörðum um áramót og þar af eru fastafjármunir rúmir 4,2 milljarðar en veltufjármunir 396 milljónir. Eigið fé nam um 1,1 milljarði og er eiginfjárhlutfallið 24,4% samanborið við 26,8% árið 2022. Skuldir námu rúmum 3,5 milljörðum, skammtímaskuldir voru þar af 587 milljónir og veltufjárhlutfall því 0,68 sem batnaði lítillega milli ára. Heildar fjárfestingar námu um 316 milljónum sem eru að langmestu leyti verkefni tengd uppbyggingu grunninnviða. Launakostnaður sem hlutfall af rekstrartekjum er nú 53,9%, samanborið við 57,6% árið 2022. Annar rekstrarkostnaður sem hlutfall af rekstrartekjum er nú 33,7%, en var 35,7% árið 2022.
Góð þróun og halda þarf áfram á sömu braut
„Í stuttu máli má segja að rekstrarniðurstaða ársins 2023 sé mjög jákvæð og jákvæð þróun tveggja mikilvægustu lykilmælikvarða sveitarfélagsins, EBITDA og veltufé frá rekstri, eru skýr dæmi um að reksturinn er á góðri leið með að verða heilbrigður. Þetta er verulega góð þróun og halda þarf áfram á sömu braut. Árið 2023 var því ár þar sem bæði tókst að halda áfram sókn því sjaldan hefur umfang fjárfestingaverkefna verið meira en einnig tókst að spila vörn þar sem reksturinn er nú í jákvæðri þróun. Verkefnið er þó einungis hálfnað og enn þarf að hagræða og endurskipuleggja til að Húnabyggð verði fjárhagslega sjálfbært,“ segir í bókun sveitarstjórnar.
Leita þarf allra leiða til aðhalds í rekstri
Fulltrúar minnihlutans í sveitarstjórn lögðu fram bókun samhliða afgreiðslu ársreikningsins. Telja þeir að nauðsynlegt sé að leita allra leiða til aðhalds í rekstri og eignasölu enda sé fjárhagsstaða sveitarfélagsins með þeim hætti að ekki er svigrúm til nauðsynlegra fjárfestinga nema með nýjum lántökum og frekari skuldsetningu. Telja þeir að sölumeðferð á fasteignunum á Húnavöllum hafi dregist úr hömlu og tekjumöguleikar á skammtímaleigu ekki verið nýttir. Þá telja þeir að aðkeypt þjónusta á vinnu við bókhald og endurskoðun sé of mikil og nauðsynlegt að bregðast við því með ráðningu fjármálastjóra.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.