Hólmfríður sér fyrir sér að framkvæmdir við háskólabyggingu á Sauðárkróki hefjist í haust
„Næsta mál sem er að mínu mati afar brýnt að tækla, svo Háskólinn á Hólum geti vaxið og dafnað, er að byggja upp state of the art kennslu- og rannsóknahúsnæði fyrir starfsemi skólans,“ sagði Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, í ávarpi við brautskráningarathöfn skólans snemma í júní. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Hólmfríði en hún sér fyrir sér að framkvæmdir við háskólabyggingu á Sauðárkróki, sem hýsa mun Fiskeldis- og fiskalíffræðideild, hefjist strax í haust.
Í ágúst 2023 missti skólinn kennslu- og rannsóknahúsnæði sitt í lagareldi á Sauðárkróki sem FISK Seafood á og þarf að nota undir stækkandi starfsemi fyrirtækisins. FISK Seafood færði skólanum húsnæði Hólalax í Hjaltadal að gjöf en þar sem lagareldi tekur ekki eingöngu til lífvera í fersku vatni er nauðsynlegt fyrir eflingu Fiskeldis- og fiskalíffræðideildar skólans að hafa kennslu- og rannsókna-aðstöðu þar sem sjór er til staðar. Því þarf að byggja upp nýtt húsnæði fyrir deildina nálægt sjó.
„Háskólinn á Hólum ráðgerir að byggja upp sérhæft kennslu- og rannsóknahúsnæði í lagareldi sem og sjávar- og ferskvatnslíffræði á Sauðárkróki,“ sagði Hólmfríður þegar Feykir spurði hana út í fyrirhugaðar framkvæmdir. „Þar sem aðgengi að sjó þarf að vera í húsnæðinu getur það ekki verið á Hólum í Hjaltadal. Í húsnæðinu verður einnig aðstaða fyrir starfsfólk á stoðsviði skólans, sem og starfsfólk og nemendur á ferðamálasviði skólans sem ekki krefjast aðstöðunnar sem fyrir er á Hólum í Hjaltadal. Í undirbúningi er stofnun nýs fræðasviðs í sjálfbærri byggðarfræði og mun það fræðasvið einnig vera með aðstöðu í nýja húsnæðinu á Sauðárkróki. Til að tengja háskólann enn betur við samfélagið og atvinnulífið verður aðstaða fyrir frumkvöðla í húsnæðinu en einnig miðlunar- og sýningarrými þar sem rannsóknaniðurstöður o.fl. eru kynntar almenningi.“
Lagareldi ein mikilvægasta og mest vaxandi atvinnugrein landsins
Hólmfríður bendir á að þar sem Fiskeldis- og fiskalíffræðideild skólans missti húsnæðið sitt á Sauðárkróki í ágúst í fyrra, þar sem aðstaða til bæði ferskvatns- og sjórannsókna var til staðar, liggi mikið á að reisa nýja aðstöðu.
„Lagareldi er ein mikilvægasta og mest vaxandi atvinnugrein á Íslandi og er gríðarleg þörf á rannsóknum en ekki síður sérhæfðu starfsfólki til að byggja undir sjálfbærni í lagareldi. Það hefur því verið ákveðið að byggja húsið í tveimur fösum og leggja allt kapp á fyrsta fasa sem er sérhæft kennslu- og rannsóknahúsnæði í lagareldi sem og sjávar- og ferskvatnslíffræði. Seinni fasinn fæli í sér frekari kennsluaðstöðu, starfs-mannaaðstöðu, nemendaaðstöðu, miðlunarrými og aðstöðu fyrir frumkvöðla.“
Hólmfríður segir að skólinn hafi gert samning við Framkvæmdasýsluna - Ríkiseignir um að annast frumathugun, þ.e. rýmisgreiningu, frumuppdrætti, kostnaðaráætlun o.fl. fyrir framtíðarhúsnæði Háskólans á Hólum á Sauðárkróki og á Hólum í Hjaltadal með áherslu á snarlega lausn fyrir Fiskeldis- og fiskalíffræðideildina vegna húsnæðisleysis. „Það var því byrjað á frumathugun fyrir fyrsta fasa húsnæðis á Sauðárkróki og sér Verkfræðistofan Stoð um verkið f.h. Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseignir. Frumathugun á öðrum fasa og uppbyggingu kennslu- og rannsóknahúsnæðis á Hólum mun hefjast á næstu vikum.“
Við undirritun viljayfirlýsingar um enn frekari eflingu Háskólans á Hólum, sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskólamálaráðherra og Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum undirrituðu þann 16. nóvember síðastliðinn, fékk skólinn 150 milljónir kr. til að hefja frumathugun á framtíðarhúsnæði fyrir háskólann. Í nýsamþykktri fjármálaáætlun ríkisstjórnar Íslands fyrir 2025-2029 er gert ráð fyrir 350 milljónum kr. til viðbótar í uppbyggingu húsnæðis fyrir Háskólann á Hólum. Í nefndaráliti fjárlaganefndar fjármálaáætlunar 2025-2029 segir: „Horfa þarf sérstaklega til þess að eftir er að klára fjármögnun á seinni fösum í uppbyggingu Háskólans á Hólum. Gerð er tillaga um samtals 350 milljónir kr. framlagi til háskólastigsins til þess að tryggja aðstöðu til fyrir starfsemi námsbrauta í hesta-fræðum og aðstöðu eldis- og rannsóknaaðstöðu fyrir Háskólann á Hólum.“
Hvenær sérðu fyrir þér að uppbygging húsnæðis skólans muni hefjast á Sauðárkróki, er verkefnið komið svo langt að sjá megi hvenær mögulega verður hægt að hefja starfsemi á Króknum? „Ég sé fyrir mér að framkvæmdir hefjist á haustmánuðum og að skólastarf í húsnæðinu geti hafist haustið 2025. Svf. Skagafjörður mun sjá um sjóveitulögn inn í húsið og er vinna við rannsóknir á aðstæðum í sjónum útifyrir ströndinni á Sauðárkróki hafnar. Staðsetning sjólagnarinnar er nokkurn vegin ákveðin en kanna þarf gæði sjósins þar sem ætlunin er að leggja lögnina.“
Byggja þarf upp kennslu- og rannsóknahúsnæði fyrir Hestafræðideild á Hólum
Í ávarpi sínu sagði Hólmfríður einnig að hún telji að færa eigi skólastarfsemi á Hólum suður fyrir þorpið og byggja háskólasvæðið upp þar sem hesthúsasvæði skólans er. Það muni binda skólastarfsemina á Hólum meira saman og aðgreina hana betur frá staðarhaldi. „Það verður byggt upp nýtt kennslu- og rannsóknahúsnæði fyrir Hestafræðideild og að hluta til fyrir stoðsvið skólans og Ferðamáladeild á Hólum en töluvert af starfsemi Ferðamáladeildar krefst aðgangs að náttúrunni sem til staðar er á Hólum. Starfsemi Hestafræðideildar verður alfarið á Hólum enda Hólar heimavöllur íslenska hestsins.
Eru hugmyndir og vinna við færslu á skólastarfsemi á Hólum nær hesthúsasvæði skólans skemmra á veg komnar, í hverju fælist sú uppbygging að þínu mati? „Já, frumathugun á framtíðarhúsnæði á hesthúsasvæði skólans eru skemur á veg komin. Þessi vinna er hluti af vinnu sem er í gangi um framtíðarskipulag þjóðmenningarstaðarins Hóla í Hjaltadal. Þar sé ég fyrir mér að fimm stoðir verði byggðar undir Hólastað, þ.e. sögu- og menningarstoðin, víglsubiskupsstoðin, ferðaþjónustustoðin, íbúastoðin og háskólastoðin. Hlutverkin þurfa að vera skýr eins og staðarhald á Hólastað og í mínum huga er hluti af því að færa háskólastarfsemina niður á hesthússvæðið og byggja þar kennslu- og rannsóknahúsnæði sem nýtist því háskólastarfi sem á Hólum er eins og fræðasviðið sem byggir undir íslenska hestinn. Hólar í Hjaltadal eru að mínu mati heimavöllur íslenska hestsins og þar á að byggja upp enn betri aðstöðu til rannsókna og kennslu á íslenska hestinum.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.