Hollvinasamtök HSN á Blönduósi bæði gáfu og þáðu
Á Húnahorninu segir að í síðastliðinni viku hafi stjórn Hollvinasamtakanna á Heilbrigðisstofnun Blönduóss afhent tvo björgunarstóla/flóttastóla til sjúkrahússins og eiga þeir eftir að koma sér afar vel ef rýma þarf húsnæðið í skyndi og ekki er hægt að nota lyfturnar í húsinu. Þá fengu Hollvinasamtökin einnig afhenta peningagjöf frá systkinunum á Hofi í Vatnsdal, þeim Ingunni, Páli, Hjördísi og Jóni, til minningar um móður þeirra, frú Vigdísi Ágústsdóttur.
Stólarnir sem voru afhentir til sjúkrahússins voru keyptir með styrk sem kvenfélagskonur úr Bólstaðarhlíðar- og Svínavatnshreppi styrktu en sú upphæð var tæp hálf milljón. Eftir afhendingu sýndi Einar Óli Fossdal, sjúkrahúsráðsmaður, hvernig nota skal stólana en þeir verða staðsettir á 3. og 4. hæð sjúkrahússins. Sigurlaug Þóra formaður afhenti Helgu Margréti yfirhjúkrunarfræðingi gjafabréfið fyrir stólunum.
Peningaupphæðin sem systkinin úr Vatnsdal afhentu var vel nýtt en heilbrigðisstarfsfólk var haft með í ráðum hvernig fjármununum skyldi ráðstafað. Voru það þær stöllur, Eva Guðbjartsdóttir og Viktoría Erlendsdóttir, sem komu með uppástungur um hvað skildi kaupa. Fyrir valinu var sjónvarp og veggfesting sem er fyrir framan þrekhjólið og íbúar geta notið þess að horfa á á meðan þeir hjóla um víða veröld. Einnig var keypt bæði hátalara- og partýbox með míkrafón en bæði tækin virka þannig að hægt er að tengjast þeim með síma og hlusta á það sem fólki dettur í hug, bæði útvarp eða tónlist, og taka þessi tæki í raun við af gömlu góðu geislaspilurunum. Að lokum voru keypt Philips ferðaútvörp til að setja inn á herbergi fyrir þá sem koma í hvíldarinnlögn. Þakkar HSN á Blönduósi þeim systkinum hjartanlega fyrir stuðninginn. Allir þessir hlutir eiga eftir að veita skjólstæðingum þeirra gleði og ánægju.
Þeim sem hafa áhuga á að styrkja Hollvinasamtök HSN á Blönduósi er bent á styrktarreikninginn: 0307 26 270, kt: 490505 0400, og minningarkortin sem eru til sölu hjá ritara HSB.
Starfsfólk HSB, kvenfélagskonur og stjórnarmenn við afhendingu gjafabréfs sem fór í að kaupa stólana. Mynd: Hlynur Tryggvason.
Formaður Sigurlaug Þóra Hermannsdóttir afhendir Ingunni Gísladóttur þakkarbréf. Mynd: Hlynur Tryggvason
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.